mán. 8. sept. 2025 06:20
Skellurinn var stór fyrir Kate Moss árið 2005 en virtist þó ekki nægur til að þurrka ferilinn hennar út, enda ein eftirsóttasta fyrirsæta þess tíma.
Kókaínlínan sem eyðilagði 4 milljóna dala samninga

Þann 25. september 2005 birtist forsíðumynd af ofurfyrirsætunni Kate Moss, þar sem hún saug línu af kókaíni í nefið, á forsíðu breska dagblaðsins Daily Mirror. Moss, sem þá var 31 árs, missti í kjölfarið samninga við Burberry, Chanel og H&M, að andvirði alls 4 milljóna dala. 

Umrætt kvöld sat Moss við drykkju í upptökuveri í Vestur-London ásamt þáverandi kærasta sínum, rokkaranum Pete Doherty, og fleira fólki. Hún bjó til nokkrar línur af kókaíni, bauð fólki og saug sjálf fimm línur. Með sígarettu í annarri hendi fékk hún sér vodkaskot og viskí á meðan hún taldi sig vera á meðal fólks þar sem hún gat sleppt af sér beislinu. Hún hafði ekki hugmynd um að verið væri að taka hana upp.

 

Það er ekki hægt að segja að Doherty hafi verið engill sjálfur eða ákjósanlegur tengdasonur en hann var elskhugi söngkonunnar Amy Winehouse þegar hún lést úr áfengiseitrun 2011 þá aðeins 27 ára. En það er útúrdúr.

Í samantekt Vanity Fair frá árinu 2013 segir að myndbirtingin í Daily Mirror hafi verið mikið áfall fyrir fyrirsætuna sem var á þessum tíma ein sú þekktasta í heiminum.

 

Uppgötvuð 14 ára

Moss er fædd í London árið 1974 og átti einn yngri bróður, Nick, og hálfsystur, Charlotte. Móðir hennar, Linda Rosina Moss, starfaði sem barþjónn en faðir hennar, Peter Edward Moss, starfaði hjá flugfélagi.

Æsku Moss er lýst sem ósköp venjulegri framan af sem litaðist síðan af skilnaði foreldra hennar þegar hún var 13 ára. Moss stundaði nám við Riddlesdown-skóla og var einungis 14 ára þegar hún var uppgötvuð af umboðsmanninum Söruh Doukas á JFK-flugvellinum í New York. Það var árið 1988.

John Galliano hjá tískuhúsinu Dior uppgötvaði Moss árið 1990 og 1992 var hún komin á samning hjá Calvin Klein þar sem hún sat fyrir í ófáum auglýsingum fyrir vörumerkið.

 

 

Gagnrýnd fyrir útlitið

Það er ekki hægt að segja að Moss sé himnalengja en hún er aðeins 1,68 metrar á hæð og töluvert lægri en gengur og gerist í bransanum. Henni var gjarnan lýst sem renglulegri en hún hafði þetta „heróín-útlit“ sem varð gríðarlega vinsælt á tískupöllunum og var í takt við tónlistar- og tískustefnuna „grunge“ sem á uppruna sinn í Seattle í Bandaríkjunum á síðari hluta níunda áratugarins.

Calvin Klein auglýsingarnar, ásamt myndaröð af fyrirsætunni í breska Vogue, urðu til þess að Moss hlaut mikla neikvæða gagnrýni fyrir. Hún var sökuð um að „ýta undir sjúkdóminn anorexíu hjá ungu fólki og eins barnaníð“.

https://www.mbl.is/smartland/stars/2025/07/30/cindy_crawford_eg_gaf_fra_mer_allt_vald_til_hans/

Þrátt fyrir ófagra gagnrýni varð Moss fljótt ein eftirsóttasta og hæstlaunaða fyrirsæta þessa tíma og árin á eftir kom hún fram í auglýsingum fyrir merki á borð við Dior, Burberry, Chanel, Versace og Dolce & Gabbana. 

Hún var drekkhlaðin verkefnum fram á 21. öldina og hafði þá þegar setið fyrir á meira en 300 forsíðum tímarita eins og bandaríska, breska og franska Vogue, Harper's Bazaar og Vanity Fair.

 

 

Ástarlífið

Ástarlíf fyrirsætunnar var vinsælt efni í erlendum slúðurblöðum. Árin 1994-1998 var Moss í sambandi með bandaríska leikaranum Johnny Depp en um það leyti sem þau slitu sambandinu á Moss að hafa lagst inn á endurhæfingarmiðstöð vegna þess að hún var örmagna og langt niðri eftir sambandsslitin.

Moss átti síðan í ástarsambandi við Jefferson Hack, ritstjóra tískutímaritsins Dazed & Confused, og eignaðist með honum dótturina Lilu Grace 29. september 2002. 

https://www.mbl.is/folk/frettir/2025/06/06/vid_vokn_um_ekki_fyr_ir_minna_en_10_000_dali_a_dag/

Hún hitti áðurnefndan Doherty fyrst á 31 árs afmæli sínu í janúar 2005 og var með honum til ársins 2007. Eiturlyfjaskandallinn með Doherty hafði ekki síður áhrif á Moss sem móður en henni fannst hún hafa brugðist dóttur sinni á vissan hátt og átti auk þess á hættu að hún yrði tekin af henni.

Heimildarmenn Vanity Fair héldu því fram að samband Moss og Doherty hafi í raun verið dauðadæmt frá upphafi en Moss er sögð hafa áttað sig á að hún átti ýmsu að tapa með kynnum sínum við Doherty og að hún gæti aldrei stjórnað honum eða neyslunni hans.

Síðar giftist hún gítarleikara The Kills, Jamie Hince. Brúðkaupið fór fram 1. júlí 2011 og klæddist Moss kjól frá hönnuðinum Galliano. Þau fóru í sundur 2015 og skilnaðurinn var staðfestur fyrir rétti 2016. 

 

 

Framhaldið 

Fyrir eiturlyfjaskandalinn í september 2005, eða í júlí sama ár, hlaut Moss Vogue/CFDA-verðlaunin frá Samtökum hönnuða í Bandaríkjunum fyrir að vera innblástur fyrir tísku. 

Þrátt fyrir að Moss missti samninga við stór fyrirtæki eftir myndbirtinguna í Daily Mirror voru margir innan bransans sem studdu við bakið á henni, þar á meðal hönnuðurinn Alexander McQueen. Í október fór hún í mánaðarmeðferð í Arizona en frétt um það birtist í Daily Mail.

Hún hélt áfram að sitja fyrir hjá  Dior og í nóvember 2005 var hún á forsíðu tímaritsins W.

Ári eftir skandalinn skrifaði Moss undir 18 samninga, fyrir haust- og vetrartískuna 2006, við fyrirtækin Rimmel, Agent Provocateur, Calvin Klein og Burberry - sem hafði hafnað henni árið áður.

 

Og verkefnin héldu áfram að koma upp í hendurnar á henni. Árin 2007-2010 var hún í samstarfsverkefnum fyrir eigin hönnun við Topshop og Longchamp.

Í desember 2013 sat hún nakin fyrir í 60 ára afmælisútgáfu Playboy og í sama mánuði hlaut hún viðurkenningu fyrir framlag sitt til tísku á 25 ára ferli sínum frá British Fashion Awards. Hún hefur hlotið aðrar ólíkar viðurkenningar en tónlistarmaðurinn Noel Gallagher er sagður hafa samið vinsæla Oasis-lagið Sunday Morning Call um hana og þá gerði breski nútímalistamaðurinn Marc Quinn 18 karata gullstytta af henni sem var til sýnis í British Museum.

Moss situr enn fyrir þrátt fyrir að hafa tekið sér hlé frá tískupöllunum 2004. Í tilefni af fimmtusafmæli hennar í fyrra tók CNN saman punkta um hana þar sem m.a. er sagt frá að hún stofnaði eigin módelskrifstofu, Kate Moss Agency. Í viðtali við BBC árið 2022 talaði Moss um skandalinn 2005 og sagði: „Mér varð óglatt og ég var ansi reið, því allir sem ég þekkti notuðu eiturlyf.“

Nokkuð ljóst er að skuggi hafi fallið á líf hennar eftir skandalinn þótt hann hafi ekki haft af henni lífsviðurværið. Eftir skandalinn hefur Moss komist á lista Forbes m.a. yfir 15 hæstlaunuðu fyrirsætur heims. Árið 2007 var hún í 99. sæti á lista Sunday Times yfir ríkustu konur Bretlands. Árið 2009 var hún í 1.348. sæti yfir ríkasta fólk í Bretlandi og enn árið 2022 var hún á lista tímaritsins Marie Claire yfir hæstlaunuðu og ríkustu ofurfyrirsætur heims.

 

 



 

til baka