sun. 7. sept. 2025 10:00
Hildur Ösp Gunnarsdóttir og Agnesa Andreudóttir Sadiku eigendur ViDoré – Hársnyrti- og hárlengingastofu.
„Nem­end­ur þurfa bók­leg­an grunn í hár­leng­ing­um“

Eigendur ViDoré, hársnyrti- & hárlengingastofu, Agnesa Andreudóttir Sadiku og Hildur Ösp Gunnarsdóttir, kalla eftir því að hárlengingafræði verði innleidd sem skyldufag á hársnyrtibraut. Þær segja öryggi viðskiptavina og fagmennsku í greininni kalla á formlega kennslu áður en nemar útskrifast.

Þær áttu nýverið fund með teymisstjóra í menntamálaráðuneytinu þar sem hugmyndin var kynnt.

„Við fengum mjög góðar viðtökur og vorum hvattar til að vinna málið áfram í samstarfi við starfsgreinaráð. Við teljum það raunhæft, tímabært og lykilatriði til að tryggja öryggi viðskiptavina ásamt fagmennsku nemenda innan greinarinnar,“ segja Agnesa og Hildur.

Þær leggja til blandað fyrirkomulag bóklegra og verklegra þátta. „Nemendur þurfa bóklegan grunn í hárlengingum en líka verklega þjálfun með mismunandi aðferðum. Þannig er fyrirkomulagið á námskeiðunum okkar og það virkar,“ taka þær jafnframt fram.

 

 

 

 

Eftirspurnin jókst hratt

Agnesa stofnaði ViDoré árið 2022, skömmu eftir sveinspróf, og lauk sérnámi hjá Rapunzel of Sweden í Stokkhólmi. „Hárlengingar voru ekki með gott orðspor hér heima og margir voru beinlínis hræddir við þær,“ segir Agnesa.

 

„Ég fékk alls ekki góðar viðtökur í byrjun þegar ég sagðist ætla út í þetta en mér fannst ekki rétt að geta ekki boðið viðskiptavinum mínum alla þá þjónustu sem þeir þurftu. Margir viðskiptavinir mínir voru með mjög fíngert og þunnt hár eftir hármissi og vildi ég hjálpa þeim að fá þykkara hár. Ég vildi breyta þessari ímynd á Íslandi og sýna að hægt væri að gera hárlengingar á faglegan og öruggan hátt án þess að eyðileggja hárið,“ sagði hún og bætti við:

„Eftirspurnin var gríðarleg strax frá upphafi og í raun sprakk allt hjá mér í byrjun og þegar Hildur Ösp gekk til liðs við ViDoré styrktist fyrirtækið enn frekar.“

 

Þær segja þróunina hafa verið mikla í hárlengingunum. „Í dag hafa hárlengingar þróast það mikið að við getum látið þær falla mjög vel inn í hárið svo þær líti sem náttúrulegast út þannig að enginn tekur eftir þeim,“ segja þær og benda á að úrvalið sé meira en áður:

„Það eru til svo margar gerðir og týpur af hárlengingum að við getum fundið lausn sem hentar nánast öllum.“

 

 

 

Áhætta þegar ófaglærðir vinna verkið

Eigendur ViDoré telja kennslu nauðsynlega til að draga úr hættu á skaða.

„Við höfum séð viðskiptavini fá skallabletti, hármissi, sveppasýkingar og jafnvel þróa með sér sjálfsofnæmissjúkdóma í kjölfar illa framkvæmdra hárlenginga sem ekki eru gerðar af faglærðum aðilum. Ef aðilinn sem framkvæmir vinnuna hefur ekki grunninn í hársnyrti, þ.e. vaxtarferli hársins, hárgerðir, hársvarðavandamál o.þ.h. Þá getur það verið mjög hættulegt fyrir viðskiptavininn,“ segja þær.

ViDoré leggur áherslu á að markmiðið sé grunnfærni allra nema, ekki að allir taki að sér hárlengingaþjónustu eftir útskrift. Þær segja vinsælustu föstu aðferðirnar vera tape-in, weft og nano bonds, en einnig bjóði stofan upp á lausnir á borð við clip-ins og tögl fyrir sérstök tilefni. Áður en lengingar eru settar í býður ViDoré ítarlega ráðgjöf þar sem hárgerð, aðferð og umhirða eru ræddar.

 

„Hárlengingar eru orðnar svo stór hluti af samfélaginu, það eru ótrúlega margir að leita til okkar á ViDoré til að fá hárlengingar. Miklu fleiri eru með hárlengingar heldur en fólk heldur af því að ef þær eru vel gerðar af fagaðilum, þá tekur maður ekki eftir því að þetta eru hárlengingar. Þess vegna viljum við vekja athygli á þessu og beita okkur fyrir því að hárlengingafræði verði hluti af hársnyrtinámi,“ segja Agnesa og Hildur.

Í lokin vilja þær ítreka mikilvægi þess að fólk leiti til löggilts hársnyrtifagfólks. Hér er hægt að fletta upp öllum löggildum hársnyrtum á landinu á island.is.

 

til baka