„Ég skrifa alltaf langmest þegar ég er að ganga í gegnum eitthvað. Nýlega hef ég verið að semja mikið af klúbbatónlist, vegna þess að líf mitt núna er bara einhver klúbbur,“ segir tónlistarkonan Kolfreyja Sól, betur þekkt undir listamannsnafninu Alaska 1867, í samtali við Morgunblaðið. Hún sendi frá sér sína fyrstu plötu, 222, í febrúar og hefur síðan þá skotist hratt upp á stjörnuhiminn íslenskrar rapptónlistarsenu.
Þegar ég slæ á þráðinn til Kolfreyju svarar hún glaðlega eftir örfáar hringingar en viðurkennir að hún hafi reyndar hálfpartinn verið búin að gleyma viðtalinu. „Þegar ég sá að þú varst að hringja vissi ég að ég ætti að vera mætt eitthvað, en mundi ekki hvert,“ segir hún og hlær vinalega. Það er heldur ekki furða að hún ruglist aðeins í dagskránni því nóg er um að vera hjá Kolfreyju þessa dagana og ekkert lát á tónleikum og öðrum giggum. Fyrst er það Októberfest SHÍ, svo Airwaves.
Það varð sprenging
Við byrjum viðtalið á byrjuninni og ég spyr Kolfreyju hvað hafi orðið til þess að hún fór að semja tónlist. „Ég hef í rauninni verið að gera tónlist alveg frá því að ég var lítil. Þetta hefur alltaf kallað á mig og mig langaði alltaf að verða tónlistarkona,“ svarar hún af einlægni.
„Þess vegna var ég alltaf í kór og á leiklistarnámskeiðum þegar ég var yngri. Tónmenntakennarinn minn í grunnskóla hvatti mig og vinkonur mínar til þess að taka upp lögin okkar og hjálpaði okkur að gera takta við þau, sem mér fannst ótrúlega gaman. Það var í fyrsta skipti sem ég gat séð fyrir mér að gera tónlist af einhverri alvöru, en fór samt ekki að semja sjálfstætt fyrr en ég var 18 ára.
Fyrstu lögin mín tók ég upp undir teppi í bílnum mínum, vegna þess að ég vildi ekki að neinn heyrði í mér. Eftir smátíma fór ég svo að setja lögin mín inn á Soundcloud og það hjálpaði mér að komast yfir það að vera sífellt að hugsa um hvað öðrum fyndist. Ég hætti að spá í hversu margir væru að hlusta og ákvað að ef að mér fyndist lögin mín góð þá væru þau það.“
Þú nefndir áðan að líf þitt væri klúbbur – hvernig þá?
„Eftir að ég gaf út fyrstu plötuna mína, 222, í febrúar varð bara algjör sprenging í lífi mínu og ég hef átt fáar leiðar stundir síðan þá. Ég held að tónlist mín í sumar endurspegli þetta því ég hef fengið alls konar frábær tækifæri og spennandi verkefni. Sumarið er bara búið að vera geðveikt. Ég tók ákvörðun í vor um að taka mér enga pásu heldur keyra bara á þetta og það skilaði sér,“ segir Kolfreyja sem í sumar hefur gefið út hvern smellinn á eftir öðrum og unnið með þekktum tónlistarmönnum á borð við Birni, Aron Can og Young Nazareth.
Svo þú hefur bara verið í stanslausri vinnu og ekki tekið þér neitt sumarfrí?
„Tja, þannig myndu margir eflaust líta á það en fyrir mér þá er þetta þannig að ef ég fæ að vinna, þá er ég sátt. En ég hef vissulega átt margar langar nætur í stúdíóinu í sumar. Það er bara svo ótrúlega gaman.“
Filterslaus í textaskrifunum
Færðu þá mikla útrás í gegnum tónlistina?
„Já, ekki spurning. Það er eitthvað við listina, hún hefur einhvern lækningamátt. Ég leyfi mér oft að vera frekar filterslaus þegar ég er að skrifa textana og það hefur hjálpað mér í gegnum ótrúlega margt, ástarsorgir og alls konar. Með tónlistinni hef ég skapað ákveðinn ímyndunarheim sem ég fer inn í þegar mér líður á vissan hátt og fæ að rækta hann og gera hann sífellt stærri. Það er sá heimur sem þið [hlustendur] fáið að hlusta á og mér finnst alltaf jafn magnað þegar fólk kemur upp að mér og segir að tónlistin hafi hjálpað þeim í gegnum erfiðleika. Það er alveg geggjað.“
Hvernig myndirðu lýsa ímyndunarheiminum þínum?
„Hann er mjög litríkur, sterkur og svolítið á jaðrinum sem er frábært því það gefur mér ákveðna sérstöðu í tónlistarsenunni á Íslandi, þó að ég segi sjálf frá.“
Alaska 1867
En hvernig verður persónan Alaska til?
„Þegar ég byrjaði fyrst að búa til tónlist var ég mjög óviss um hvað ég vildi gera og var lengi að finna minn stíl. Fyrst var ég mest að gera old-school hip-hop-tónlist og svo, eftir að ég kynntist fyrrverandi kærastanum mínum, fór ég að búa til electronic hyperpop í bland við rapp með honum. Það er þannig sem Alaska fer að verða til.
Svo var ég heima hjá mér eitt kvöldið að horfa á vídjó á Youtube um ríkið Alaska þar sem kom fram að það hefði verið selt til Bandaríkjanna árið 1867. Á skjánum stóð „Alaska 1867“ og ég greip það bara. Þetta var fyrir sex árum og það er smá fáránlegt að segja það en mér leið eins og þetta væru örlögin. Mér finnst mjög næs að geta verið Kolfreyja með vinum og fjölskyldum mínum en Alaska þegar ég er að vinna í tónlistinni. Þetta er samt ekki beinlínis einhver karakter sem ég fer í, heldur bara listamannanafnið mitt.“
Ástir og örvænting
Eru textarnir þínir mjög persónulegir?
„Ekki alltaf. Bráðum er ég til dæmis að fara að gefa út lag um sambandsslit sem fjallar um stelpu sem langar að hætta með kærastanum sínum. Ég á samt ekki kærasta og var ekki að hætta með neinum. Þegar ég skrifa þannig texta reyni ég að sjá fyrir mér hvað ég myndi gera í þessum aðstæðum. Ég finn samt að ef ég er sjálf að upplifa það sem ég er að skrifa um er mun auðveldara að koma því í orð. Örvæntingin er meiri.“
Gætirðu skrifað um hvað sem er? Eða heldurðu þig við ákveðin umfjöllunarefni?
„Ég held að ég skrifi mest um ástina. Ég veit ekki af hverju það er, en það er eitthvað svo gaman að skrifa ástarlög eða lög um sambandsslit. Og, eins og ég sagði áðan, þá hef ég nýverið mest verið að búa til klúbbatónlist. Aron Kristinn, sem var í Clubdub, sagði einu sinni við mig að það væri aldrei hægt að gera of skemmtilega tónlist og ég tók hann bara á orðinu. Skemmtileg tónlist verður alltaf í tísku og alltaf málið. Svo er ég reyndar líka búin að læra svo ótrúlega mikið af öllum þeim sem ég hef unnið með upp á síðkastið, sem er svo geggjað.“
Boltinn rúllar …
Á síðastliðnum mánuðum hefurðu tekið rappsenuna með trompi. Hvernig finnst þér viðtökurnar hafa verið innan bransans?
„Mér hefur verið tekið virkilega vel. Ég held að þetta sé svolítið þannig að ef þú ert að gera feitt dót, þá færðu viðurkenningu fyrir það. Í rauninni hélt ég að þetta yrði miklu erfiðara og sá fyrir mér, eins og ég held að margar stelpur geri, að það yrði ótrúlega erfitt að ná einhverjum árangri innan bransans. Því það er enginn annar að gera þetta og það vantar fyrirmyndir. Ég var líka mjög lengi að búa til tónlist án þess að nokkur tæki eftir því sem ég held, eftir á að hyggja, að hafi verið gott. Ég er til dæmis miklu sáttari við það sem ég er að gefa út í dag heldur en það sem ég var að gefa út þegar ég var að byrja. Það tekur alltaf tíma og æfingu að gera góð lög og skapa einlægan hljóðheim og ég er þakklát fyrir að hafa fengið þennan tíma til að þróa minn stíl.
Þegar allt kemur til alls held ég að málið sé að maður verði að hætta að pæla of mikið í því hvað öðrum finnst. Ísland er pínulítið land miðað við önnur lönd og ef mann langar að eignast vini þá verður maður að koma sér á framfæri og leggja vinnu í það. Ef ég vil eitthvað þá þarf ég að sækja það sjálf. Um leið og ég hætti að pirra mig á því að enginn væri að hlusta á mig, þá fór boltinn að rúlla. Fólk fór að hlusta.“
Finnst þér vanta fleiri konur í rappsenuna?
„Já, hundrað prósent. En síðan ég byrjaði að gera mína tónlist hef ég fengið skilaboð frá mörgum stelpum sem eru að gera eitthvað svipað. Það er til dæmis ein sem heitir Dolo Rich og er alveg illuð. Hún er svo kúl. Og mér finnst unglingsstelpur í dag og yngri kynslóðin almennt vera svo nett. Ég hef mikla trú á því að ýmislegt sé að breytast. Framtíðin er björt.“