„Ég sagði auðvitað strax já þegar Hallveig hafði samband við mig og spurði hvort ég væri til í þetta, enda þekki ég hana mjög vel frá því í gamla daga þegar hún var í Hljómeyki, sem ég stjórnaði.
Ég þekki líka til fólksins sem syngur með henni í Cantoque Ensemble, svo það var enginn efi í mínum huga,“ segir kórstjórinn Bernharður Wilkinson, sem búsettur er í Færeyjum en ætlar að koma sérstaklega til Íslands nú í september til að stjórna Kammerkórnum Cantoque Ensemble á tónleikum til heiðurs eistneska tónskáldinu Arvo Pärt.
Tónleikarnir verða á níræðisafmæli hans 11. september og sönghópurinn mun flytja dagskrá af verkum tónskáldsins sem hann samdi fyrir „a capella“ kór, eða kór án undirleiks.
„Ég hlakka mikið til og það er heiður að fá að taka þátt í tónleikum í tilefni af níræðisafmæli Arvos Pärt, ég held upp á hann og tónlistina hans, hann er einn af mikilvægustu tónskáldum okkar tíma,“ segir Bernharður sem bjó í tæp þrjátíu ár á Íslandi áður en hann flutti til Færeyja, en á þeim tíma lék hann fyrstu flautu með Sinfóníuhljómsveit Íslands og stjórnaði hljómsveitinni við ýmis tækifæri. Hann lék einnig með Kammersveit Reykjavíkur og var meðlimur í Blásarakvintett Reykjavíkur. Bernharður stjórnaði enn fremur tveimur af fremstu kórum Íslands, Söngsveitinni Fílharmóníu og Hljómeyki. Bernharður segist alveg vera til í að koma oftar til Íslands sem gestastjórnandi ef honum verður boðið.
„Fyrst eftir að ég flutti til Færeyja fór ég mjög oft til Íslands til að stjórna Sinfóníuhljómsveit Íslands, stundum allt að átta vikur á hverju ári. En það kemur maður í manns stað og fjölmargt efnilegt ungt fólk tekur við keflinu af okkur sem höfum lokið okkar hlutverki,“ segir Bernharður sem hlaut nýlega danska riddarakrossinn frá danska konunginum fyrir þjónustu sína við færeyska tónlist, en hann hefur stjórnað Sinfóníuhljómsveit Færeyja í 21 ár og einnig tveimur kórum.
„Þetta var mikill heiður og kom mér á óvart. Ég fór um borð í flotta skipið konungsins og hitti hann sjálfan, sem var gaman,“ segir Bernharður en hann segir nú skilið við starf sitt sem stjórnandi hjá Sinfóníunni í Færeyjum.
„Enda alveg nóg að stjórna þar í tvo áratugi, en ég stjórna enn tveimur kórum og ég kenni líka í tónlistarskólanum í Þórshöfn. Nú langar mig til að nota tímann til að ferðast og njóta tónlistar, til dæmis spilar sonur minn enn í Sinfóníuhljómsveit Íslands og hann spilar oft sem sólóhornleikari í New York-fílharmóníunni, mig langar að hlusta á hann spila þar. Ég ætla líka að fara til Berlínar og hlusta á fyrrverandi nemanda minn, Stefán Ragnar Höskuldsson, spila þar, en hann er nýlega kominn með stöðu sem sólóflautuleikari í Berlínarfílharmóníunni,“ segir Bernharður sem hefur búið í Færeyjum undanfarin 22 ár, en hann er hálfur Færeyingur því að móðir hans var færeysk. „Ég kann vel við mig í Færeyjum, hér er gott og rólegt fólk og allt frekar notalegt.“
Hann fékk hugljómun
Hallveig Rúnarsdóttir, sópransöngkona og stofnandi og meðlimur sönghópsins Cantoque Ensemble, segir Arvo Pärt standa hjarta sér nær.
„Ég söng verkið Te Deum eftir hann með útskrifuðum nemendum Hamrahlíðarkórsins árið 1998 og hann var sjálfur á staðnum. Ég heillaðist svo af verkinu og honum sjálfum að ég endaði á að skrifa BA-ritgerðina mína um hann þegar ég var í námi úti í Bretlandi. Hann var framan af mjög leitandi og óhamingjusamur í því sem hann var að gera, vissi ekki alveg hvað hann vildi og hætti fyrir vikið að semja tónlist um tíma. Þar sem hann er frá Eistlandi þá var hann á sínum fyrri árum undir Sovétríkjunum og yfirvöld voru hliðholl honum sem tónskáldi, sem hann var ósáttur við. Þetta var tvíeggjað sverð, því ef yfirvöld hefðu ekki verið hliðholl honum þá hefði hann ekki fengið að semja tónlist, eða enginn hefði fengið að spila tónlist hans. Hann var í þessari tilvistarkreppu þegar hann fékk hugljómun, að vinna tónlist út frá kirkjuklukkum, sem gengur allt út á hreinu tónbilin, þríundir, ferundir, fimmundir og áttundir. Hann býr í raun til skriftaraðferð sem heitir tintinnabuli, sem er latneskt heiti yfir litlar bjöllur, enda býr tónlist sem skrifuð er með slíkri aðferð yfir ákveðnum bjölluhljómi. Hreinu tónbilin myndast í svokallaðri yfirtónaröð, og það er þetta sem Arvo Pärt er alltaf að leita að og tengir við trú, að þetta sé guðdómurinn að birtast í tónlist. Hann er mjög trúaður maður og tónlistin hans er ofboðslega falleg og íhugul. Hún er mínímalísk, því hann er alltaf að vinna að mestu með þessi fjögur tónbil, en það er eitthvað í tónlistinni hans sem snertir við mér, alveg inn í dýpsta kjarna. Tónlistin hans býr yfir hinum náttúrulega hljómi.“
Þarf að syngja mjög hreint
Hallveig segir að fyrir söngvara sé tónlist Arvos Pärt krefjandi á annan hátt en mörg önnur tónlist.
„Það þarf að syngja hana mjög hreint svo hún virki, þetta er í raun mjög viðkvæmt, en það er ekki erfitt raddlega séð. Kúnstin við að syngja verkin hans er að ná þessu flæði,“ segir Hallveig sem stofnaði Cantoque Ensemble, tíu manna atvinnukórinn, fyrir átta árum. Hann starfar mikið bæði hérlendis og erlendis og hefur í þrígang verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna fyrir söng sinn.
„Ein ástæða þess að ég stofnaði þennan sönghóp er sú að ég er alin upp í kór og saknaði þess mikið að syngja í kór. Til að ég gæti það þurfti ég að stofna minn eigin. Ég hef starfað lengi sem einsöngvari og ég var of mikill einsöngvari til að passa inn í hefðbundna kóra, svo ég fékk þetta góða fólk til liðs við mig.“