Athafnakonan Kim Kardashian hefur þó nokkrum sinnum valdið usla síðan hún byrjaði ferilinn fyrir 20 árum síðan. Hún kom fram í lifandi streymi Kai Cenat's Mafiathon fyrr í vikunni og nú hefur henni tekist að kljúfa netverja í tvo hópa varðandi nýtt viðfangsefni: Heimavinnu.
Stjórnandi Mafiathon talaði um að krakkar vildu feta í fótspor hans m.a. við að spila tölvuleiki í lifandi streymi, en hann sagði jafnframt að börn ættu fyrst og fremst að einbeita sér að náminu og vinna heimavinnuna sína.
„Ég trúi ekki á heimavinnu,“ sagði Kardashian. „Krakkar eru í skólanum í átta tíma á dag. Þegar þeir koma heim, fara þeir í íþróttir, eiga eitthvert líf, verja tíma með fjölskyldunni,“ bætti hún við. Sjálf á Kardashian fjögur börn með fyrrverandi eiginmanni sínum, tónlistarmanninum Kanye West; North, Saint, Chicago og Psalm.
Þessi athugasemd Kardashian hefur aldeilis kveikt í fólki og hafa margir tjáð skoðanir sínar í kjölfarið, ýmist með eða á móti. Sumir segja mikilvægt að börn fái næði heima fyrir til að fara yfir námsefnið með foreldri á meðan aðrir benda á að fullorðnir taki ekki vinnuna með sér heim og af hverju ættu börnin þá að gera það?