„Við vorum ekkert endilega með augastað á „seventís“-villu sem við enduðum svo á að kaupa,“ segir Svana Rún Símonardóttir félagsráðgjafi en hún og eiginmaður hennar, Ríkarð Svavar Axelsson, stöðvarstjóri Special Tours, fjárfestu nýlega í eign á Norður-Ítalíu og hefur Svana verið dugleg að deila ferlinu á samfélagsmiðlum.
„Húsið er ótrúlega skemmtilega skipulagt, það er rosalega hátt til lofts og það er sturlað útsýni. Það er 150 fermetrar, með háalofti sem er ekki inni í fermetratölu,“ segir Svana þegar hún lýsir eigninni sem þau leituðu að í tvö ár.
Húsið er byggt 1970 og var sumarhús fjölskyldunnar sem svana og Ríkarð keyptu það af og segir Svana eignina hafa gengið á milli kynslóða í sömu fjölskyldu.
Töfrandi staður
Svana og Ríkarð reka saman verslunina og netverslunina mynja.is. Saman eiga þau sex börn á aldrinum 13-22 ára og er fjölskyldan búsett á Akureyri. Hins vegar ólst Svana upp á Dalvík og Ríkarð í Neskaupstað svo það er ekkert fjarri lagi að þau hafi leitað að eign í rólegu þorpi, í fjarlægð frá ysi og þysi sem fylgir stórborgum.
„Við erum samt ekki nema fjórar mínútur að keyra til næsta bæjar.“
Svana segir svæðið vera ævintýri líkast. Eignin er í litlu þorpi í Piedmont-héraðinu sem er mikið vínhérað og er á heimsminjaskrá UNESCO vegna þess. Þar er hægt að fara á skíði á veturna og á ströndina á sumrin og segir Svana staðina einungis í klukkustundar fjarlægð frá húsinu.
„Þarna er líka Alba-trufflusveppasvæði, ostagerðarmenning og kampavínsgerð. Svæðið er einnig þekkt fyrir amaretti-framleiðslu.“
Þrátt fyrir fegurðina, vínekrurnar og sólblóma- og lofnblómaakrana allt um kring er ekki eins mikil ferðamennska á svæðinu eins og á mörgum öðrum stöðum á Ítalíu.
Ekki aftur snúið
„Við fórum saman til Ítalíu 2017 og keyrðum um en vorum mest megnis í Toscana. Það er til mynd af okkur fyrir framan hús í niðurníðslu. Ég sagði að ég myndi eignast hús hérna einhvern daginn. Við fórum í þessa ferð og það bara var ekkert aftur snúið.“
Þau voru þó með allt aðrar hugmyndir um draumaeign en útsýni og garður þurfti að vera til staðar. „Það mátti alveg þurfa að gera húsið upp.“
Svana segir þau Ríkarð hafa stúderað ítalskar fasteignasíður, ferlið sé flókið og þarna sé mikið skrifræði.
„Það sem við gerðum var að finna fasteignasala sem við vorum í samskiptum við. Við bara treystum henni. Hún fékk að vita hvað við vorum að leita að en við vorum líka oft búin að finna hús og settum okkur í samband við hana og hún hafði samband við aðrar fasteignasölur. Það er flóknara ferli og dýrara en alveg þess virði,“ útskýrir Svana og bætir við að nú þurfi hún bara að læra ítölsku.
Falinn fjársjóður
Spurð um innbúið sem fylgdi með í kaupunum svarar Svana: „Það er mjög algengt á Ítalíu að innbú fylgi með vegna þess að það er rosalega dýrt að henda rusli á Ítalíu. Við borguðum fullt af pening til að henda ónothæfum hlutum en reyndum að halda í allt sem við gátum. Við héldum t.d. öllum svefnherbergismublunum. Ég er með hekluð teppi og alls konar dót sem ég tímdi ekki að henda.“
Á meðal mublanna fylgdi einnig málverk sem Svana segir að fari upp á vegg.
„Niðri í bílskúr voru fjársjóðir. Þar voru gömul 60's og 70's hjól, útvörp, myndavélar og ég á eftir að fara í gegnum helling. Þar voru alls konar antíkmunir sem við þurfum að fara betur í gegnum.“
Svana segir þau hafa borgað sanngjarnt verð fyrir húsið en það er ekkert miðað við húsnæðisverð hérlendis.
Á döfinni er vinna við að koma húsinu í stand svo þau geti dvalið í því. „Við tókum síðasta hús í gegn á 30 dögum. Maðurinn minn er að fara út 2. október og við ætlum að geta verið í húsinu um jólin,“ segir Svana og bætir við að þau séu með ítalskan sérfræðing í verkefninu sem sækir um tilskilin leyfi fyrir öllum breytingum og hefur yfirumsjón.
„Það sem þarf að gera er að skipta um vatnslagnir og rafmagn. Allt annað er í rauninni fegrunaraðgerðir. Við erum búin að taka niður tré í garðinum en eigum eftir að gera upp húsið að utan og af því að þetta er á heimsminjaskrá þá þurfum við að vita hvort við megum mála það í þeim litum sem við viljum.“
Til lengri tíma sjá þau fyrir sér að breyta neðri hæðinni, bílskúrnum, í íbúð og nefnir Svana að einnig væri hægt að búa til herbergi og baðherbergi á háaloftinu. Þau sjá eignina fyrir sér sem orlofshús fjölskyldunnar og að í framhaldi verði mögulega hægt að leigja það út.