Stefanía Malen bakarameistari er einungis 22 ára gömul og er þegar búin að sækja sér þekkingu og reynslu í bakstrinum. Hún elskar haustin og nýtir berjauppskeruna í baksturinn.
„Ég lauk sveinsprófi í bakstri árið 2022 og útskrifaðist sem bakarameistari árið 2024. Árið 2024 fékk ég tækifæri til að taka þátt í heimsmeistaramóti ungra bakara – algjörlega ógleymanleg upplifun. Ég flutti til Kaupmannahafnar haustið 2024 til að prófa eitthvað nýtt, og það hefur verið ævintýri frá fyrsta degi. Nú bý ég þar og vinn í bakaríinu Bake my day,“ segir Stefanía og brosir.
https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/05/22/fann_hja_mer_thorf_fyrir_ad_opna_mig_fyrir_einhverj/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/06/05/ungu_bakararnir_tofrudu_fram_gullfalleg_listaverk_o/
https://www.mbl.is/matur/frettir/2024/03/29/astfangin_af_thvi_ad_horfa_a_adra_baka/
Tíndi bláber í sveitinni hjá ömmu sinni og afa
Hún gefur lesendum uppskrift sinnar uppáhaldsbláberjaköku sem á stað í hjarta hennar enda tengd bernskuminningum.
„Þegar ég var lítil fórum við alltaf upp í sveit til ömmu og afa á haustin að tína bláber, sérstaklega aðalbláber. Við tíndum heilu dallana, gerðum sultu og borðuðum fullt af berjum beint úr móanum. Mamma gerði líka alltaf þessa uppskrift úr aðalbláberjum, og það er eitthvað sem hún gerir enn í dag. Hún klikkar aldrei, þetta slær alltaf í gegn,“ segir Stefanía.
Uppskriftin er bæði einföld og fljótleg, og hún tekur ekki meira en 60 mínútur með bakstri.
„Kakan verður best borin fram volg með vanilluís eða rjóma, en það sem er sérstaklega skemmtilegt við þessa uppskrift er að þú getur auðveldlega breytt henni eftir því hvaða ber þú vilt. Ef þú vilt skipta út bláberjum getur þú notað annað gott ber, t.d. jarðarber, hindber eða kirsuber. Þú getur notað bæði fersk og frosin ber, eftir því hvað þú hefur á boðstólnum,“ bætir Stefanía við.
Það er ekki nauðsynlegt að hafa hrærivél við höndina þegar þessi kaka er gerð.
Bláberjakaka
Fyrir um 25 cm hringform, gott líka að nota eldfast mót.
- 200 g smjör, við stofuhita
- 2 dl sykur
- 3 dl hveiti
- 2 dl kókosmjöl, gróft
- 5 dl bláber
Aðferð:
- Hitið ofn í 200°C.
- Hrærið saman smjöri og sykri – öllu er hnoðað saman með höndum.
- Bætið við hveiti og kókosmjöli og blandið þar til deig myndast.
- Takið um 80% af deiginu og þrýstið í botninn á bökunarformi (og smá upp með hliðunum).
- Dreifið bláberjunum yfir botninn.
- Rífið eða molið restina af deiginu (20%) yfir bláberin.
- Bakið í miðjum ofni í 30 mínútur, eða þar til kakan er orðin gullin brún.