„Ég færði mig yfir til Icelandair í sumar. Mér finnst þetta það skemmtilegasta sem ég geri og þar sem ég gat hugsað mér að gera þetta til frambúðar vildi ég færa mig yfir í meira öryggi,“ segir tónlistarkonan og flugfreyjan Brynja Lísa Þórisdóttir sem hóf störf hjá Icelandair eftir að hafa starfað í tvö ár hjá flugfélaginu Play.
Brynja Lísa er 29 ára gömul og einstæð móðir níu ára stúlku og búa þær í fallegri íbúði í Hafnarfirði.
„Ég elska að ferðast en gerði meira af því áður,“ segir hún. Tíminn er af skornum skammti um þessar mundir, en ásamt því að vera í fullu starfi sem flugfreyja, er hún að klára stúdentinn í fjarnámi við Menntaskólann á Tröllaskaga.
Að auki semur hún tónlist og 29. ágúst gaf hún út fjögurra laga EP plötuna Kama, ásamt plötusnúðnum Jóhanni Steini Gunnlaugssyni, sem hún lýsir sem elektrónískri dansmúsík með poppívafi.
Tónlistin og háloftin
„Tónlistin hefur alltaf fylgt mér. Ég átti geislaspilara og hlustaði t.d. mikið á Pottþétt plöturnar og Shakiru. Ég skildi ekkert endilega ensku, enda var ég kannski svona fimm til sjö ára, svo ég bjó til mína eigin texta svo ég gæti sungið með lögunum. Í dag fjalla textarnir mínir að mestu um ástina. Ég vinn úr tilfinningunum með því að skrifa. Pínu til að róa hugann.“
Hvernig fer flugfreyjustarfið saman við tónlistina?
„Ég sem mest á kvöldin þegar dóttir mín er sofnuð svo fer ég í stúdíóið þegar tími gefst. Það er skemmtilegt að finna jafnvægið og það er enginn dagur eins,“ segir hún og bætir við að hún sæki innblásturinn í tilhugalífið en ekki starfið.
Hver var mest spennandi áfangastaðurinn sem þú flaugst til í sumar?
„Ég hafði t.d. aldrei komið til Chicago áður og var í stoppi þar. Mér fannst það frábært. Það var æðislegt að labba þarna um. Þar er allt í bland stórborgarfílingur, svo er líka hægt að labba niður að strönd sem er ótrúlega krúttleg, strandveitingastaðir og allt til alls.“
Hver er besti staður sem þú hefur komið til?
„Mér finnst París ótrúlega skemmtileg, þá var ég í vinnuferð með veitingastaðnum Rok og ferðin snerist um að fá innblástur úr matarmenningu Frakka. Þar fyrir utan myndi ég segja Miami.“
Hefur dvalið mikið á Spáni
Brynja Lísa var búsett á Spáni 2022-2023 og lærði bæði jóga og spænsku. „Ég var líka að vinna á strandbar í Altea, sem er kaffihús á daginn og kokteilbar á kvöldin.“
Hún segir mikið hafa gengið á í lífi sínu áður en hún flutti til Spánar og þegar amma hennar lést fann hún þörf fyrir að núlstilla sig og þurfti til þess algjört næði.
Fyrstu tvær vikurnar bjó hún í íbúð á Alicante. Þar gekk á ýmsu sem hún segir hafa verið miður skemmtilega reynslu.
„Ég var nýflutt þarna 2022 og var úti á svölum að læra eitt kvödið. Þá heyri ég rifrildi tveimur hæðum fyrir ofan mig þar sem maður og kona stóðu úti á svölum á sjöttu hæð og hnakkrifust. Ég var á fjórðu hæð. Þegar ég var að pakka dótinu mínu saman heyri ég skell. Konan lá á jörðinni og ég vissi ekki hvort hann hrinti henni eða hvort hún datt.“
Brynja Lísa segist hafa beðið eftir sjúkrabíl og lögreglu til að láta vita hvað gekk á í aðdraganda þess að konan féll. Þá þurfti hún einnig að láta vita að barn væri í íbúðinni en hún heyrði barnið kalla á móður sína eftir að hún féll.
Bauð götulistamanni gistingu
Brynja Lísa á nóg af sögum í pokahorninu og hefur mikið dálæti á Spáni.
„Svo var ég á Tenerife í þrjá mánuði með dóttur mína þegar hún var sex mánaða.“ Brynja Lísa segir þann tíma stútfullan af góðum minningum. „Og við fórum alltaf í ákveðinn göngutúr í kvöldsólinni. Á sama staðnum var alltaf sama konan sem spilaði á úgúlele og söng. Ég man hún var með svo fallega rödd og ráma svo ég settist oft niður til að hlusta á hana.“
Við lok ferðar nálgaðist Brynja Lísa konuna og hrósaði henni fyrir sönginn. Þegar konan spurði hvaðan þær mæðgur væru sagðist hún sjálf vera á leiðinni til Íslands innan mánaðar en konan, sem var frönsk, lifði og starfaði sem götulistamaður víðsvegar um heiminn. Úr varð að konan kom til landsins og fékk gistingu hjá Brynju Lísu og barnsföður hennar í tíu daga. „Hún var að spila hér í miðbænum, svo fór hún og hélt áfram að ferðast.“
Það er nokkuð ljóst að Brynja Lísa eigi það til að lenda í ævintýrum en að lokum segir hún að fyrir utan vinnu og skóla sé mikilvægast fyrir hana að sinna móðurhlutverkinu, komast eitthvað í ræktina og semja tónlist.