lau. 6. sept. 2025 16:00
Þvílíka stemningin á BBQ & Pitch í Grósku.
Rosaleg grillstemning hjá Sylvíu Kristínu og Davíð

Hin árlega grillveisla, BBQ & Pitch, fór fram í ágúst í Grósku, þar sem frumkvöðlar, fjárfestar og áhugafólk um nýsköpun komu saman í lifandi stemningu. Viðburðurinn er einn af hápunktum Startup SuperNova viðskiptahraðalsins, sem KLAK - Icelandic Startups stendur fyrir.

Í ár voru grillmeistararnir ekki af verri endanum; þau Ásta Sóllilja Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups, Davíð Símonarson, stofnandi Smitten, Hrönn Greipsdóttir, forstjóri Nýsköpunarsjóðsins Kríu, Jason Zhang, svæðisstjóri Huawei á Íslandi, og Sylvía Kristín Ólafsdóttir, nýr forstjóri Nova, sem kom fram opinberlega í því hlutverki í fyrsta sinn.

Gestir nutu veitinga, kaldra drykkja og góðs félagsskapar áður en frumkvöðlarnir í Startup SuperNova kynntu verkefni sín með kraftmiklum lyftukynningum.

„BBQ & Pitch er alltaf einstakur viðburður, það er ótrúlegt að sjá hversu mikil framför og breyting hefur orðið hjá teymunum frá því þau stigu fyrst á svið í byrjun SuperNova. Nú þegar við erum hálfnuð í ferlinu er augljóst hversu mikið þau hafa vaxið og þroskast, og það er innblástur fyrir okkur öll að fylgjast með þessari vegferð,” segir Ásta Sóllilja framkvæmdastjóri KLAK - Icelandic Startups í fréttatilkynningu. 

Startup SuperNova BBQ & Pitch var opinn fyrir öllum og skapar einstakt tækifæri til að tengjast frumkvöðlum, fjárfestum- og auðvitað grillmeisturum SuperNova.

 

til baka