þri. 9. sept. 2025 19:00
Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar er 60 ára og hefur sjaldan haft það betra.
Ertu 60 ára en líður eins og þú sért 50 ára?

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar skrifar um daglegar venjur og hvernig við getum stillt okkur af til þess að öðlast betri heilsu. Sjálf er hún 60 ára en líður ekki deginum eldri en 50 ára. 

Heilsusamlegar venjur eru eins og vaxtavextir og vextir líka af þeim.

Vissir þú að einungis 1% framfarir geta skilað sér í 37-faldri bætingu yfir árið? Ímyndaðu þér að þú setjir 500 kr. daglega í sparnað með 10% vöxtum. Eftir 5 ár er upphæðin orðin tæplega 1.200.000 kr. með vöxtum og vaxtavöxtum. Lítið getur vaxið í risa stórt þegar þú sinnir því daglega og markvisst. Það eftir engu að bíða, leiðirnar til að lifa betur eru í augsýn og auðfengnar.

Það eru forréttindi að fá að eldast, og eldast vel. Að vera 60 ára en líða eins og 10 árum yngri í eigin skinni er raunhæft. Þannig upplifi ég það. Það er undir okkur sjálfum komið að velja hvern dag að stuðla að því að eldast eins vel og okkur er unnt. Okkar er valið. Það er ekki endilega alltaf þægilegasta leiðin, en uppskeran er stórkostleg, aukin orka, kraftur, bætt andleg líðan og einfaldlega allt verður auðveldara. Of mikil þægindi geta nefnilega auðveldlega komið okkur í vanda og sumir benda á að við ættum að horfast í augu við að „þægindakreppa“ (e.Comfort Crisis) er ástand sem því miður of auðvelt er að koma sér í ef við stöðnum í letilífinu.

Í dag langar mig að deila með þér 12 heilsuvenjum sem ég er að einbeita mér að um þessar mundir: 

Þessar venjur set ég í forgang í mínum daglega lífsstíl vegna þess að ég finn og sé árangurinn. Enginn vafi er á því að það er þess virði að framfylgja þeim þó mig langi sannarlega ekki alltaf til þess. Ávinningurinn er ótvíræður. Vellíðan, aukin orka, betri lífsgæði, ekki aðeins í dag og næstu daga heldur einnig innlegg inn í heilsubankann sem nýtist um alla framtíð. Það hvetur mig áfram hvern einasta dag. Ég nota heilsuhring (Ultrahuman) sem gefur mér áhugaverðar og mikilvægar upplýsingar um svefninn, skrefafjölda, hjartslátt, streituálag o.fl. sem mér þykir afskaplega hvetjandi og veitir mér aðhald og áminningu.

Styrkur og úthald

  1. Lyfti lóðum 2-3x í viku - Vöðvastyrking eykur lífskraftinn. Fjölbreyttar æfingar sem reyna á allan helstu vöðvahópa. Gæti sérstaklega að því að styrkja markvisst bakvöðvana, manni hættir til að gleyma þeim og einblína frekar á kvið og brjóstvöðva.
  2. Reglulegar bætingar - ekki staðna. Endurskoða æfingakerfið reglulega, þyngdir og/eða endurtekningar. Vil leitast við að efla styrk og úthald vöðvanna. Geri mitt besta, en forðast ofálag.
  3. Daglegir göngutúrar. 8.000–15.000 skref á dag. Reyni að missa ekki úr dag og nota tímann til að hlusta á eitthvað áhugavert og uppbyggjandi.
  4. Ein stutt og kröftug þolæfing á viku: T.d. 8 mín Tabata sprettir á assault hjóli. Markmiðið er að stuðla að aukinni hámarks súrefnisupptöku, sem talin er ein sterkasta vísbending um góð lífsgæði á efri árum.

Mataræði

  1. 30 g prótein í hverri máltíð. Prótein stuðlar að seddu, vöðvavexti og heilbrigðri öldrun.
  2. 90% af mataræðinu úr hreinum, næringarríkum mat. 10% fyrir annað sem er síður hollt.
  3. Hefja daginn á próteini, próteinkaffi með kreatíni ásamt einu harðsoðnu eggi. Prótein er saðsamt, fljótleg og þægileg leið til að fá nægilegt prótein í upphafi dags.(Mæli með að vanda valið á próteindufti, forðast gervisætuefni og önnur aukaefni. Ég nota Foodin, hreint og bragðgott prótein.) Kreatínið er frábært fæðubótarefni, mikilvægt fyrir vöðvauppbyggingu og heilastarfsemi. Set eina tsk af hnetusmjöri með til að fá smá holla fitu og meira bragð. Eggið gefur auka 6g af próteini og fullt hús næringar. Góð byrjun á deginum sem minnkar líkur á sætindalöngun yfir daginn.
  4. Hressing eftir kvöldmat. 15–30 mínútna ganga jafnar blóðsykur og styður við meltingu. Finn mun á svefni þegar ég dríf mig.

Svefn

  1. Sofna og vakna á sama tíma Líkaminn er kerfi sem við getum sjálf þjálfað. Því stöðugra sem svefnmynstrið er, því betur virkar það og því betur líður okkur.
  2. Nota skjágleraugu við skjánotkun á kvöldin til að útiloka blátt ljós eða sleppa skjánotkun og lesa bók. Stuðlar að framleiðslu melatóníns og undirbúningi fyrir svefninn.
  3. 3-2-1 reglan fyrir svefn: Ekki borða 3–5 tímum fyrir svefn, alltaf betra að borða kvöldmat snemma. Ekki drekka vökva 2 tímum fyrir svefn, minnkar líkur á klósettferðum að næturlagi. Ekki nota skjá klukkustund fyrir svefn, eykur líkur á djúpsefni.
  4. Magnesium Glycinate fyrir svefninn. Finn að það bætir mín svefngæði og djúpsvefn.

Daglegar venjur leiða af sér aukin lífsgæði og heilbrigðari æviár.
E.t.v hugsar þú, þetta er allt of mikið fyrir mig. Það er skiljanlegt. Þó hver og einn þáttur skiptir miklu máli þarf ekki að gleypa fílinn í einu lagi. Tileinkaðu þér eina nýja venju, þegar hún er orðin fastur liður í lífsstílnum þínum, bættu annarri við. Þannig verður heilsuvegferðin auðveld eins og að leggja fyrir litla upphæð á dag sem á löngum tíma vex með vöxtum og vaxtavöxtum.

Stundum hættir okkur til að ofmeta hverju við getum áorkað á mánuði, en vanmetum árangurinn sem við getum náð á fimm árum.
Taktu þér tíma, þetta er langtíma verkefni sem skilar þér ávinningi sem er ómetanlegur.
Eitt er öruggt, um ókomna framtíð munt þú þakka þér eigin staðfestu.

 

til baka