Það eru engar ýkjur að strandveiðimenn hafi orðið fyrir vonbrigðum í sumar enda tókst stjórnvöldum ekki að gera breytingar sem beðið hafði verið eftir.
Kjartan Páll Sveinsson er formaður Strandveiðifélags Íslands og minnir hann á að umrædd breyting hafi verið hluti af stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. „Í aðdraganda kosninga hófum við að kortleggja hvaða flokkar væru á okkar línu og hverjir ekki, og af þeim sem komust inn á þing var það Flokkur fólksins sem var ljóst að myndi standa þéttast við bakið á okkur – og hefur verið á okkar máli í gegnum tíðina. Fyrir okkur voru Samfylkingin og Viðreisn óþekkt stærð og fulltrúar flokkanna vildu lítið tjá sig um málaflokkinn, en við vissum að við gætum vænst takmarkaðs skilnings hjá Framsóknarflokki, Sjálfstæðisflokki og Miðflokki,“ útskýrir Kjartan.
„Þegar Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins mynduðu meirihluta sammæltust flokkarnir um að gera þá löngu tímabæru breytingu á strandveiðum að tryggja sjómönnum réttinn til að vera að veiðum 48 daga á veiðitímabilinu,“ segir Kjartan og bætir við að ríkisstjórninni hafi verið ákveðinn vandi á höndum enda fiskveiðiárið hafið þegar nýtt þing tók til starfa og því búið að úthluta aflaheimildum. Finna þurfti aukið svigrúm til að standa við 48 daga markið og tókst það um síðir með því að fá lánað úr kvótapotti næsta árs. „En svo brast málþófið á og stjórnarandstaðan tryggði að þetta mál, og mörg önnur, komst ekki í gegn. Því fór sem fór, og breytingafrumvarpið brann inni.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/18/eg_fann_bara_ekki_leidina/
Dreifð veiði og gott verð
Veiðar voru því með hefðbundnu sniði, en 48 daga reglan átti m.a. að laga þann vanda að veiðar hafa hingað til verið stöðvaðar þegar strandveiðipotturinn er tæmdur. Hefur það oft valdið töluverðu misræmi á milli veiðisvæða enda skapast mikið kapphlaup hjá sjómönnum. Að sögn Kjartans dreifðust veiðarnar samt nokkuð vel um landið í þetta skiptið, og þar sem margir höfðu gert ráð fyrir að frumvarp ríkisstjórnarinnar yrði að lögum fóru veiðarnar hægar af stað.
„Fiskgengdin var með endemum góð, og meira að segja sæmileg á svæði C, norðaustur af landinu, sem er yfirleitt erfiðast á þessum árstíma og jafnan lítið eftir í pottinum þegar fiskurinn byrjar að sýna sig þar. Gott verð fékkst líka fyrir aflann, og bjargaði vertíðinni þó að það hafi verið sárt að ekki skyldi staðið við gefin loforð,“ segir hann. „Veiðin í maí og júní var minni en í fyrra og skýrist af því að menn reiknuðu með að 48 daga reglan næði í gegn. En þegar komið var fram í júlí varð ljóst að frumvarpið yrði ekki að lögum í tæka tíð og hljóp þá meira kapp í strandveiðimenn.“
Þegar 48 daga reglan nær loks í gegn segir Kjartan að hægt verði að sinna veiðunum með allt öðrum og betri hætti. „Í dag er ramminn utan um veiðarnar rosalega stífur, sem skapar hvata til að sækja sjóinn þegar aðstæður eru varhugaverðar, því innan hvers mánaðar eru aðeins nokkrir leyfilegir veiðidagar og þarf ekki mikið til að missa úr dag og verða fyrir fjárhagslegu tjóni. Það er óþarfi að hafa reglurnar eins og þær eru í dag, og mun stuðla að betri, jafnari og öruggari veiðum að tryggja öllum strandveiðisjómönnum 48 daga yfir sumarmánuðina.“
Félagslegt réttlæti hefur áhrif á verð
Skiptar skoðanir eru um hversu mikið svigrúm á að skapa fyrir strandveiðar yfirhöfuð, en um 800 bátar taka þátt í veiðunum ár hvert og skipta á milli sín um 2-3% af heildarfiskveiðikvótanum.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/18/fann_ekki_grundvoll_fyrir_48_dogum/
Þeir sem vilja greiða leið strandveiða benda m.a. á að veiðarnar séu lyftistöng fyrir mörg smærri bæjarfélög, veiðarnar losi lítið magn koltvísýrings á hvert landað kíló og veiðarfærin valdi lífríkinu engu tjóni. „Þá er markaðurinn reiðubúinn að greiða hærra verð fyrir handfæraveiddan fisk og fæst t.d. 20% hærra verð fyrir krókaveiddan fisk á Bretlandsmarkaði en fyrir fisk sem veiddur er í troll.“
Spurður hvað gæti skýrt þennan mikla verðmun segir Kjartan að líklega sé erfitt að greina gæðamun á fiski eftir veiðiaðferð, ef rétt er staðið að kælingu og verkun. „Ein sennileg skýring er sú að neytendur í evrópsku stórborgunum eru reiðubúnir að greiða meira fyrir vörur sem eru vistvænni og efla félagslegt réttlæti, en sjómaðurinn sem heldur einn til veiða fær að halda öllum ávöxtum erfiðis síns ólíkt áhafnarmeðlimi á stóru skipi. Er það engin tilviljun að þegar stóru útgerðirnar auglýsa sig nota þær ekki myndefni sem sýnir dekkið á ofurtogara, heldur einmitt rómantískar myndir af einyrkja á smábát.“
Flöskuhálsar í kælikeðju
Sums staðar hefur því verið fleygt að gæði strandveiðifisksins geti verið misjöfn en Kjartan segir þvert á móti að strandveiðimenn séu mjög meðvitaðir um rétt vinnubrögð og góða kælingu, og veiti hver öðrum aðhald. „Hins vegar má sums staðar finna flöskuhálsa sem geta valdið vandræðum, og þannig á það t.d. við á Patreksfirði, sem kalla mætti höfuðborg strandveiðanna, að þar getur kælikeðjan rofnað. Fiskverkendur hafa kvartað yfir því að aflinn komi stundum ekki nógu vel kældur, en þá er það vandamál sem skapast eftir að fiskinum hefur verið landað. Mætti bæta úr þessu og nota Grundarfjörð til fyrirmyndar, en ef landað er eftir að höfninni er lokað er fiskurinn í góðri kælingu þar til verkun hefst næsta morgun.“
Sá metnaður sem strandveiðisjómenn hafa í gæðamálum segir Kjartan að sjáist kannski hvað skýrast í Facebook-hópi stéttarinnar. „Þar birta menn myndir og myndbönd af lífinu um borð í bátunum. Er það ósjaldan viðkvæðið að menn hrósa fyrir þegar þeir sjá að kæling aflans er til fyrirmyndar.“
Loks segir Kjartan strandveiðarnar þjóna mikilvægu hlutverki bæði við að tryggja gott framboð af hráefni yfir sumarmánuðina og mynda eðlilegt markaðsverð fyrir afurðina. „Þegar strandveiðarnar hefjast eru stórútgerðirnar oft búnar með sinn þorskkvóta og áhafnir þeirra farnar í sumarfrí. Sé ég það gerast núna fjórða sumarið í röð að sum fiskverkunarfyrirtækin eru í stökustu vandræðum með að tryggja sér nægt hráefni yfir hásumarið og yfir sex vikna tímabil áttu seljendur erfitt með að skaffa fisk sem viðskiptavinir biðu eftir í Evrópu og Bandaríkjunum,“ útskýrir Kjartan. „Þetta gæti orðið mikið vandamál fyrir greinina, og strandveiðarnar bjarga málunum að stórum hluta, en stórmarkaðirnir úti í heimi bregðast vitaskuld ekki vel við því ef að sveiflur eru í framboði á fiski og gætu tekið upp á því að færa viðskipti sín eitthvert annað.“
Stofnmatið furðulegt
Um veiðarnar almennt segir Kjartan ýmislegt að athuga við ráðgjöf Hafró. „Stofnmatið virðist algjörlega út úr kortinu, og þrátt fyrir að ráðgjöfinni hafi verið fylgt upp á gramm ár eftir ár heldur þorskkvótinn áfram að minnka – þvert á það sem vonir stóðu til. Tekist er harkalega á um hve mikið má renna í strandveiðipottinn en samdráttur þorskveiðikvótans undanfarin tuttugu ár er langtum meiri en sá kvóti sem rennur til strandveiðiflotans, og sýnir það vel að til mikils væri að vinna ef skapa mætti svigrúm til að auka veiðarnar.“
Kjartan undirstrikar að ráðleggingar Hafró virðist ekki stemma við það sem sjómenn upplifa úti á miðunum, og nóg sé af fiski í sjónum. „Kannski þarf að efla rannsóknirnar, eða athuga hvort menn séu of einstrengingslegir í því hvernig þeir túlka gögnin.“