Brynja Björk Harðardóttir tannlæknir og eigandi tannlæknastofunnar Tannprýði svarar spurningum lesendum Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móður sem hefur áhyggjur af nikótínpúðaneyslu sonar síns sem er 17 ára.
Sæl,
Ég er að reyna að fá unglinginn á heimilinu til að minnka notkun nikótínpúða. Hann er nýorðinn 17 ára, flottur drengur, duglegur og hraustur að eðlisfari. Hann hefur verið í körfubolta síðan hann var smástrákur. Hann virðist samt svo háður nikótíninu. Fyrirmyndina fær hann ekki að heiman en flestir félaga hans nota svona púða daglega. Síðasta árið finnst mér tennurnar hans hafa gulnað töluvert, svo ég er farin að sjá mun. Hvað er að gerast og hvernig er best að bregðast við?
Bkv,
KP
Sæl/l og takk fyrir góða spurningu.
Það getur sannarlega verið áskorun að takast á við þessa þróun sérstaklega þegar vinahópurinn hefur sterk áhrif. Eitt ráð gæti verið að ræða við hann á góðum nótum og útskýra skaðsemi þessara efna.
Nikótín er mjög ávanabindandi efni og eitt það sterkasta sem finnst í löglegum neysluvörum eins og td. nikótínpúðum.
Nikótínfíkn virkar þannig að þegar nikótínið nær til heilans fær fólk svokallað „nikótín-kick“. Nikótínið örvar losun á mörgum taugaboðefnum, t.d. dópamíni sem tengist vellíðan og umbunarkerfi heilans.
En það sem verra er, er að einstaklingur þarf alltaf meira og meira nikótín til að fá sömu áhrif. Heilinn verður háður því að fá nikótín til að virka „eðlilega”.
Þegar nikótín er ekki til staðar byrjar kvíði og neikvæðar tilfinningar að gera vart við sig. Þá fær maður löngun í meira. Fráhvörf valda m.a. pirringi, kvíða, þreytu og einbeitingarskorti.
Nýjasta tegund nikótínpúða er þessir hvítu sem ættu ekki að gera tennur gular eins og eldri tegundin sem er brún. Þessar nýju hvítu vörur innihalda hins vegar mun sterkari skammt af nikótíni sem gerir þær enn meira ávanabindandi. Nikótín í þessu magni fer mjög illa með tannhold og bókstaflega tærir það. Það eyðist og kemur ekki aftur.
Því miður skortir rannsóknir á hvítu púðunum þar sem vörurnar hafa ekki verið nógu lengi á markaðnum. Vitað er að nikótínið í þessum vörum hefur sömu neikvæðu áhrif á hjarta og æðar og aðrar tóbaksvörur og enn verri í þessum stóru skömmtum.
Rannsóknir á nikótíni hafa sýnt að stuttu eftir notkun þess sjást neikvæð áhrif á æðastarfsemi og hjartsláttur og blóðþrýstingur hækkar. Einnig er vitað að nikótín á meðgöngu getur verið áhættusamt fyrir bæði móður og barn.
Bestu kveðjur og gangi þér vel með samtalið,
Brynja Björk Harðardóttir tannlæknir.
https://www.mbl.is/smartland/heilsa/2025/07/11/omedhondladur_kaefisvefn_getur_verid_haettulegur/
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Brynju Björk spurningu HÉR.