Peugeot hefur staðið í mikilli endurnýjun á undanförnum árum, bæði hvað varðar ímynd og framleiðslu og það sést vel í nýju rafbílunum frá þeim, E-3008 og E-5008, sem kalla má systurbíla. Báðar eru þær systur byggðar á glænýjum STLA-grunni frá Stellantis-samstæðunni, sem sjást mun hjá fleiri framleiðendum á komandi árum, og þetta eru um margt afar svipaðir bílar í útliti og tækni. Hinn augljósi munur liggur í stærðinni: E-3008 er fimm sæta, miðlungsstór jepplingur, sem hentar vel daglegu amstri, en E-5008 er 25 cm lengri þannig að það komast tvö sæti í viðbót í hann, svo hann dugar líka sem mömmurúta.
Franskir bílar hafa jafnan lagt töluvert upp úr fínlegum stíl og það má sjá þess merki í þessum nýju bílum frá Peugeot. Hitt leynir sér þó ekki, að hönnuðirnir hafa ákveðið að það sé stæll yfir honum ekki síður en stíll, ef svo má að orði komast. Stællinn er eilítið yfirsterkari, enda á þetta að vera framtíðarlegur bíll og þetta gengur alveg bærilega upp. Eins og viðtökurnar kannski sýna; þrátt fyrir að rafbílar seljist engan veginn jafnvel í Evrópu nú og fyrir nokkrum árum, þá getur Peugeot ekki kvartað.
Frönsk fegurð
Frakkar kunna að hanna eftirtektarverða bíla og það hefur Peugeot nýtt sér. E-3008 er hagnýtur bíll, fallegur með sportlegt útlit, augljós jepplingur að framan, en líkari coupé að aftan. Eins og menn þekkja er ljón í merki Peugeot og hönnuðirnir leika sér með það, bæði að framan og aftan, en að framanverðu eru þrjár ljósrákir niður af aðalljósunum, eins konar klór eftir ljónshramm. E-5008 er með sama táknmál í hönnun, en hann er stærri og ekki alveg eins rennilegur að aftan, eins og hæfir rýmri fjölskyldubíl.
Í stjórnklefanum
Í báðum bílunum má segja að innanrýmið sé hannað utan um ökumanninn í nýjustu útgáfu Peugeot af i-Cockpit, en nafnið vísar til stórnklefa flugvéla, sem er ekki fjarstæðukennt. En svo má líka segja að tölvuleikjakynslóðinni líði eins og heima hjá sér með flatskjái og hentuga hnappa, að ógleymdu stýrinu. Fyrir ofan mælaborðið er sveigður skjár sem nær yfir á miðbikið, en svo er annar snertiskjár þar með hnöppum sem má forrita og breytast eftir þörfum.
Allt er það ágætt og virkar svipað og í flestum nýjum bílum öðrum. En eins og í þeim mörgum, ef ekki flestum, þá þykir mér of mörgum alvöru hnöppum hafa verið fórnað. Sumt vill maður geta gert án þess að taka augun af veginum og ekki síst á það við um miðstöðina. Það getur ekki verið gaman á köldum morgnum að þurfa að grafa sig í gegnum nokkrar valmyndir til þess að hita betur, en sú kvörtun á raunar við um flesta nýja og skjávædda bíla. Í E-3008 er gott rými fyrir fjóra fullorðna og eitt barn, fimm fullorðna ef þrír þeirra eru mjög góðir vinir. En það er gott fótapláss og rúmt um höfuðið miðað við marga rafbíla. Og farangursrýmið er rúmgott miðað við þennan flokk.
Í E-5008 er meira pláss og það er helsti sölupunkturinn. Aftast er þriðja sætaröðin ef vill, en hún er ekki nema fyrir krakka upp að svona 12 ára aldri. Unglingar geta troðið sér þangað, en þeir kvarta á lengri ferðum (sönn saga). Þegar öll sætin eru uppi er farangursrýmið ekki ákaflega mikið, en þegar aftari raðirnar eru niðurfelldar er það eins stórt maður getur óskað sér.
Þægindi í báðum bílunum eru til fyrirmyndar. Sætin eru með góðum stuðningi og hægt að fá sportsæti með nuddi, hita og öllu bullinu. Efnisvalið er ágætt, það er bæði plast og tau, sem er smekklega valið saman. Svo er rétt að geta þess að það er stemningslýsing í bílunum, sem er gaman að fikta í til samræmis við akstursstillingu. Það hljómar eins og algert aukaatriði, en það gerir sitt.
Nóg af hólfum og tengjum
Grunnútáfan Allure er í báðum bílum vel útilátin með þráðlausu Apple CarPlay og Android Auto sem staðalbúnaður, ásamt þráðlausri hleðslu og fjölda USB-C-tengja í takt við Evróputilskipanir. Svo er hægt að fá LR-útgáfuna, sem er með meira drægi, GT er betur búin og loks er fjórhjóladrifin AWD-útgáfa fyrir þá sem vilja vera alveg vissir á veturna.
E-5008 er auk þess með fleiri geymsluhólf, eins og hentar fjölskyldubíl, stærri sætisbökum með hillum fyrir ungana og þó að aftasta röðin sé þröng, þá er ekkert að aðgenginu að henni.
Eldsnöggur skjár
Sjálfsagt taka menn fyrst eftir sveigða skjánum sem er tvískiptur. Annars vegar með það sem snýr að ökumanninum, en hins vegar miðskjár fyrir leiðsögn, tónlist og stillingar. Myndgæðin eru mjög mikil og skjáviðbragðið ört.
Ég skal játa að ég gaf mér ekki tíma til þess að sérsníða i-Toggle-hnappana á snertiskjánum í miðjunni, sem sennilega hefði gert einhverjar af miðstöðvarkvörtunum að ofan óþarfar.
Viðmót ökumanns
Sem fyrr segir er i-Cockpit-hönnunin sniðin að ökumanninum. Sumum kann að finnast stýrið of lítið og það situr neðarlega, en það vandist eins og skot, það er sportlegt og hefur sitt að segja um hvað það er gaman að aka þessum bílum, sem enginn skyldi vanmeta. Og það er létt og lipurt í borgarakstri.
Það er fínt útsýni í bílnum og ökumaðurinn hefur góða tilfinningu fyrir umhverfi sínu og bílnum. Stýri og upplýsingum á mælaborði er líka vel fyrir komið, þannig að það skyggir ekki á neitt.
Hársbreidd hjá NCAP
Báðir bílarnir koma með nýjustu öryggispakka, nóg af loftpúðum og því öllu. Samt kemur á óvart að þeir skoruðu ekki alveg fullt hús í öryggisprófunum Euro NCAP, vantaði herslumuninn upp á að ná fimm stjörnum, aðallega sýnist manni vegna hóflegrar sjálfvirkni. Ekki að maður sakni einhvers sérstaklega, það er sjálfvirkur hraðastillir, akreinavari, blindpunktsviðvaranir, sjálfvirk neyðarhemlun og fleira á listanum.
Vél og afl
Í báðum bílunum er hægt að velja á milli ýmissa útgáfna, en eins og fyrr segir er annars vegar munur á drægi þeirra og síðan geta menn splæst í fjórhjóladrif með tveimur vélum og 320 hestöflum. Og þá er líka auðveldara að kitla pinnann og komast í hundraðið á liðlega 6 sekúndum.
Liðið eftir veginum
Eins og áður var á minnst eru þetta skemmtilegir bílar í akstri báðir.
E-3008 er lipur í akstri og býsna sportlegur, hentar vel í borgarumferð og virkar léttur miðað við stærð. Hann fer sportlega í beygjurnar, án þess að fjöðrunin verði of stíf.
E-5008 er eðlilega þyngri og meiri bátur, samt enginn klunni og mjög þægilegur á lengri ferðum. Hann líður eftir malbikuðum vegi eins og ekkert sé og ökumaðurinn jafnafslappaður og bíllinn.
Hann er ágætur á mölinni en ekki þannig að maður sækist eftir því.
Með tveggja véla útgáfunni fær hann sjálfsagt aukið grip og kraft, sem koma sér vel þar, en hann verður tæplega sportlegur samt, þetta er fyrst og fremst traustur og góður fjölskyldubíll.
Peugeot E-3008
Allure
Rafdrifinn 73 kWst rafhlöðu
Framhjóladrifinn.
210 hestöfl / 155 kW
100 km/klst á 8,8 sek.
170 km/klst hámarkshraði
525 km drægi á hleðslu
Eigin þyngd 2.108 kg
520-1.480 l farangursrými
Umboð: BL
Grunnverð: 6.570.000 kr. (með styrk)
Peugeot E-5008
Allure
Rafdrifinn 73 kWst rafhlöðu
Framhjóladrifinn
210 hestöfl / 157 kW
100 km/klst á 8,0 sek.
170 km/klst hámarkshraði
502 km drægi á hleðslu
Eigin þyngd 2.218 kg
259-1.850 l farangursrými
Umboð: BL
Grunnverð: 7.070.000 kr. (með styrk)