fös. 22. ágú. 2025 08:28
Steffen Skjøttelvik úti í guðsgrænni náttúrunni. Hans er nú leitað ákaft í Kanada.
Bakpoki Norðmannsins fundinn

Kanadíska lögreglan, sem nú hefur leitað Norðmannsins Steffens Skjøttelviks í viku, fann bakpoka hans og riffil í gær skammt frá því svæði sem GPS-tæki hans var á þegar það tók á móti síðustu staðsetningarhnitum. Var göngugarpurinn frá Asker þá staddur við austurbakka Hayes-árinnar.

Eins og mbl.is fjallaði um í gær lagði Norðmaðurinn í hann frá Fort Severn í Ontario í júlí í gönguferð þvert yfir Kanada og bandaríska ríkið Alaska, alls um 10.000 kílómetra leið sem hann hugðist yfirstíga á þremur til fjórum árum.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/08/21/tyndur_a_10_000_km_gongu/

Í ljósi fundarins leggur lögregla nú allt kapp á að leita hans í ánni og beitir hún – og fleiri viðbragðsaðilar ásamt fjölda sjálfboðaliða – drónum, bátum, þyrlu og leitarhundum. Fjöldi fólks gengur bakka árinnar beggja vegna hennar.

 

 

Mætir ekki bara og fer að leita

Christian Dyresen, fjölmiðlafulltrúi Skjøttelvik-fjölskyldunnar í Noregi, segir norska ríkisútvarpinu NRK að fjölskyldan haldi enn í vonina um að finna göngumanninn en Paul Manaigre, liðþjálfi í Konunglegu kanadísku riddaralögreglunni, segir í tölvupósti til ríkisútvarpsins að leit á svæðinu umhverfis ána sé ekki hættulaus.

„Þetta er ekki svæði sem maður bara mætir á og byrjar að leita. Hættur tengdar dýralífi þarna eru margar vegna fjölda ísbjarna og úlfa í nágrenninu,“ skrifar liðþjálfinn.

NRK

Aftenposten

TV2

til baka