Óskar Smári Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Fram í fótbolta, var áhyggjufullur eftir 2:5-tap á móti Víkingum í Bestu deild kvenna á heimavelli sínum í kvöld.
Spurður út í hvað hafi orðið hans liði að falli í kvöld sagði Óskar þetta:
„Þetta var alls ekki planið. Í hvert skipti sem Víkingar komust í fyrirgjafarstöðu í kvöld þá stefndi bara í mark hjá þeim. Allt liðið mitt varðist barnalega og kjánalega í kvöld. Varnarlega vorum við bara eins og gatasigti.“
Víkingar sóttu dýrmæt stig í markaleik gegn Fram
Þetta eru kannski ekkert sérstök úrslit, sérstaklega í ljósi þess að Fram er svolítið að sogast niður í fallbaráttuna. Hvernig metur þú stöðuna núna?
„Ég er 100% sammála þér. Við hefðum getað komist í mjög góða stöðu með sigri hér í kvöld og verið með allt í okkar höndum. Við erum það svo sem ennþá. En við þurfum bara líta inn á við og fara í smá naflaskoðun fyrir hvað við stöndum.
Ekki sé ég liðið mitt sem barðist eins og ljón á fyrri hluta tímabilsins fyrir hverju einasta marki, skoti og bolta. Ég bara sé ekki það lið í dag. Þar af leiðandi ganga góð lið á lagið og við verðum þeim bara að bráð. Núna erum við bráð annarra liða í þessum leikjum. Við erum þau einu sem getum breytt því og það er ennþá tími til þess því það er nóg eftir af tímabilinu.
Við þurfum að fara að líta í eigin barm og horfa aðeins öðruvísi á okkur en við erum að gera því ef við spilum svona varnarleik áfram þá eigum við eftir að lenda í miklum vandræðum það sem eftir lifir tímabils.“
Ertu að reyna að segja mér að liðið þitt sé að líta of stórt á sig svona miðað við allt og allt?
„Kannski, mögulega, ég veit það ekki. Kannski er ég hluti af vandamálinu, ég bara veit það ekki því það er erfitt að átta sig á því svona strax eftir leik. Það eru miklar tilfinningar í gangi svona strax að leik loknum og ég er í sjokki yfir þessum varnarleik sem við sýndum í kvöld.
Úti á velli erum við að skapa fullt af færum og skorum tvö mörk. Víkingar eru með gott lið en við vorum algjörlega langt frá okkar besta í kvöld.
Ef við horfum á síðustu leiki þá erum við að fá á okkur 3-5 mörk og ef það er niðurstaðan og við ætlum að sætta okkur við það þá er augljóst hver endaniðurstaðan verður í sumar.
Við þurfum að fara á æfingasvæðið og horfa á þennan leik, læra af honum og laga hlutina. Hvort sem liðið er að líta of stórt á sig, ákveðnir leikmenn eða hvað, þá veit ég það ekki en eitthvað erum við að gera rangt og það þarf að lagast strax,“ sagði Óskar Smári í samtali við mbl.is.