mið. 20. ágú. 2025 22:26
Bergdís Sveinsdóttir fagnar öðru marka sinna í kvöld.
Þurftum á þessum sigri að halda

Bergdís Sveinsdóttir leikmaður Víkinga kom inn á sem varamaður þegar um 20 mínútur voru eftir af leik Fram og Víkinga í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld og náði Bergdís að skora tvö mörk á þeim tíma í 5:2-sigri Víkingskvenna.

Bergdís hafði þetta að segja spurð út í sigurinn:

„Við þurftum á þessum sigri að halda og ég er fyrst og fremst ánægð með þessi þrjú stig. Þetta var kaflaskiptur leikur af okkar hálfu og kannski ekkert okkar besti leikur í fyrri hálfleik. Þetta var smá upp og niður en ég er mjög ánægð með að við höfum landað þessum sigri.“

Víkingar sóttu dýrmæt stig í markaleik gegn Fram

En þessi sigur setur ykkur í ágætis stöðu upp á framhaldið þrátt fyrir að liðið sé enn þá í fallsæti, ekki satt?

„Það var markmiðið fyrir leikinn að ná þessum þremur stigum því við hefðum verið í miklu brasi eftir þennan leik ef hann hefði ekki unnist. Við erum mjög ánægðar með sigurinn og næsta verkefni er að mæta Tindastóli.“

Þú kemur inn á sem varamaður og setur tvö mörk á þessum 20 mínútum sem þú spilar. Það hlýtur að vera ágætis árangur, ekki satt?

„Jú, það er náttúrulega aldrei gaman að vera á bekknum og ég ætlaði bara að koma inn á og gefa allt í þetta. Þannig að ég er mjög ánægð með að hafa skorað þessi tvö mörk.“

Þú ert þá væntanlega að senda þjálfaranum þau skilaboð að þú eigir að byrja í næsta leik?

„Já og nei. Hann tekur ákvörðun um byrjunarliðin. Ég er búin að vera smá tæp. En ég er ánægð að hafa fengið þessar 20 mínútur og fannst ég bara gera vel á þeim tíma.“

Eru Víkingar að setja tóninn fyrir komandi leiki með þessari frammistöðu í kvöld? Má segja að nú séu kaflaskil hjá Víkingum í þessari deild?

„Já, algjörlega. Við vitum alveg hvað við getum. Við erum ekki búnar að vera góðar í sumar en mér finnst vera stígandi í þessu hjá okkur og ég er bara hæst ánægð með sigurinn. Hann skipti okkur miklu máli,“ sagði Bergdís í samtali við mbl.is.

til baka