„Við vorum þolinmóðar,“ sagði Jordyn Rhodes, sóknarmaður Vals, í samtali við mbl.is eftir sigur á Þrótti í Reykjavíkurslag í Bestu deildinni í fótbolta í Laugardalnum í kvöld. Urðu lokatölur 2:0.
https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2025/08/20/valskonur_komnar_a_flug/
„Við hreyfðum boltann vel og gáfum okkur tíma í sóknirnar. Það gaf okkur meira svæði til að finna lausa leikmenn í góðum stöðum. Ég er mjög ánægð með frammistöðuna og mörkin hefðu getað orðið fleiri,“ sagði sú bandaríska um leikinn.
Valsliðið fór hægt af stað á tímabilinu og var um tíma nálægt fallsætunum. Liðið er nú í fjórða sæti og búið að vinna fjóra leiki af síðustu fimm.
„Við vorum að byggja upp nýtt lið og ég var ein af mörgum sem voru nýjar í þessu liði. Það tók okkur svolítinn tíma að tengjast sem lið. Auðvitað hefði ég viljað að við hefðum spilað svona allt tímabilið en við fögnum því hvað við höfum bætt okkur mikið sem lið,“ sagði hún.
Rhodes hefur sjálf raðað inn mörkum í ágústmánuði eftir hæga byrjun fyrir framan mark andstæðinganna í Valstreyjunni.
„Það tók mig tíma að finna taktinn og læra á samherjana. Ég er mjög sátt með að þetta sé að smella hjá öllum og þar á meðal mér.“
Hún lék með Tindastóli á síðustu leiktíð og kann vel við Skagafjörðinn og höfuðborgina.
„Það er allt öðruvísi að vera hér í borginni en ég elskaði tímann minn fyrir norðan og hef gert það hér líka. Ég heimsæki stundum Sauðárkrók og það er alltaf gott að koma þangað,“ sagði Rhodes.
Markið hennar var býsna huggulegt en hún afgreiddi boltann glæsilega upp í hornið úr teignum.
„Ég átti ekki von á að fá boltann. Það var skrítið flug á honum. Ég náði góðri snertingu, lét vaða og vonaði að boltinn færi inn. Ég er glöð að boltinn fór á markið og við gátum fagnað,“ sagði Rhodes.