mið. 20. ágú. 2025 21:21
Þórdís Elva í leiknum í kvöld.
Ekki í lagi að mæta svona

Þórdís Elva Ágústsdóttir leikmaður Þróttar var svekkt þegar hún ræddi við mbl.is í kvöld enda nýbúin að tapa gegn Val, 2:0, á heimavelli í Bestu deildinni í fótbolta. Þróttur fékk víti snemma leiks sem ekki nýttist en þess fyrir utan gekk illa að skapa góð færi.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2025/08/20/valskonur_komnar_a_flug/

„Við mættum ekki ákveðnar í þennan leik og vorum ekki að finna þær leiðir sem við ætluðum að finna. Við vorum óþolinmóðar, of hægar og einhvern veginn ekkert verið að smella.

Við þurfum að skoða þetta. Það er ekki í lagi hjá okkur að mæta svona. Við höfum ekki verið að mæta svona í leiki. Þetta er ólíkt okkur. Nú þurfum við að setjast niður og ákveða hvernig við ætlum að klára þetta tímabil,“ sagði Þórdís.

Þróttur er nú átta stigum frá toppliði Breiðabliks en liðin voru jöfn á stigum fyrir ekki allt löngu. Þrótti hefur hins vegar gengið verr eftir EM-hléið.

„Við erum með sama kjarna þótt við missum út tvo leikmenn. Við fengum einn í staðinn og þetta á ekki að vera svona mikill munur. Við þurfum að taka okkur saman í andlitinu,“ sagði hún.

Þróttarar hafa enn trú á að geta náð toppliði Breiðabliks, þrátt fyrir átta stiga mun.

„Við verðum að hafa trú á því. Það er nóg eftir af tímabilinu og það geta allir misstigið sig. Við getum ekki sest niður og farið að gráta,“ sagði Þórdís.

til baka