mið. 20. ágú. 2025 21:00
Leikmenn Bodö/Glimt.
Norsku meistararnir í kjörstöðu

Noregsmeistarar Bodö/Glimt unnu afskaplega öruggan sigur á austurrísku meisturunum í Sturm Graz, 5:0, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.

Leikurinn fór fram í Bodö í Noregi og eru Norðmennirnir í sannkallaðri kjörstöðu fyrir síðari leikinn í Graz í næstu viku. Bodö/Glimt hefur aldrei komist í riðla- eða deildarkeppni Meistaradeildarinnar en er nú hársbreidd frá því.

Kasper Högh, sem lék fimm deildarleiki fyrir Val án þess að skora sumarið 2020, braut ísinn fyrir Bodö/Glimt í kvöld.

Odin Björtuft, Ulrik Saltnes og Håkon Evjen bættu svo allir við mörkum fyrir heimamenn auk þess sem William Böving skoraði sjálfsmark og niðurstaðan því fimm marka sigur.

Meiri spenna er í hinum viðureignunum þremur þar sem fyrri leikirnir fóru einnig fram í kvöld en þeim lauk öllum með jafntefli.

Basel og FC Köbenhavn gerðu jafntefli, 1:1, í Sviss þar sem Xherdan Shaqiri skoraði mark heimamanna úr vítaspyrnu áður en Gabriel Pereira jafnaði metin fyrir dönsku meistarana.

Rúnar Alex Rúnarsson sat allan tímann á varamannabekk FC Köbenhavn.

Önnur úrslit:

Celtic – Kairat Almaty 0:0
Fenerbahce – Benfica 0:0

til baka