Júlíus Magnússon reyndist hetja Elfsborg þegar hann skoraði sigurmarkið í 1:0-sigri á Haninge í 2. umferð sænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu í kvöld.
Með sigrinum tryggði Elfsborg sér sæti í riðlakeppni bikarkeppninnar.
Júlíus lék allan leikinn á miðju Elfsborg og skoraði sigurmarkið með skalla eftir fyrirgjöf Besfort Zeneli skömmu fyrir leikhlé. Var þetta fyrsta mark miðjumannsins fyrir félagið.
Ari Sigurpálsson var sömuleiðis í byrjunarliði Elfsborg og var tekinn af velli á 65. mínútu.