mið. 20. ágú. 2025 19:52
Elísa Viðarsdóttir úr Val verst Þórdísi Elvu Ágústsdóttur hjá Þrótti í kvöld en þær voru áður liðsfélagar hjá Val.
Valskonur komnar á flug

Valur sigraði Þrótt, 2:0, á útivelli í Reykjavíkurslag í 14. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Þróttur er áfram í þriðja sæti með 37 stig og Valur í fjórða með 24. Valur hefur unnið þrjá leiki í röð í deildinni og fjóra af síðustu fimm.

Þróttur fékk úrvalsfæri til að skora fyrsta mark leiksins á 8. mínútu þegar Tinna Brá Magnúsdóttir í marki Vals tók framherjann Kaylu Rollins niður innan teigs. Katie Cousins fór á vítapunktinn en Tinna bætti upp fyrir fyrri mistök með glæsilegri markvörslu.

Valur var nálægt því að komast yfir á 24. mínútu. Fyrst átti Fanndís Friðriksdóttir skot í slána úr teignum og Jordyn Rhodes skaut rétt framhjá úr góðu færi er hún fylgdi á eftir.

Valsliðið þurfti að bíða fram að lokamínútu fyrri hálfleiks en þá skoraði Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir fyrsta markið er hún afgreiddi boltann í netið af stuttu færi eftir að Rhodes skallaði boltann á hana. Var staðan í hálfleik því 1:0.

Á 50. mínútu var komið að Ragnheiði að leggja upp mark á Rhodes. Sú fyrrnefnda átti þá góða fyrirgjöf frá hægri og Rhodes kláraði færið úr teignum með glæsilegu skoti upp í hornið.

Varamaðurinn Helena Ósk Hálfdánardóttir fékk tvö úrvalsfæri til að skora þriðja mark Vals er hún slapp í tvígang í gegn á sömu mínútunni stundarfjórðungi fyrir leikslok en Mollee Swift í marki Þróttar varði vel frá henni í bæði skiptin.

Valskonur voru áfram líklegri til að bæta við en Þróttur að minnka muninn en fleiri urðu mörkin ekki. 

til baka