Úkraínska frjálsíþróttakonan Maryna Bekh-Romanchuk hefur verið dæmd í fjögurra ára keppnisbann af alþjóðlega lyfjaeftirlitinu í frjálsíþróttum, AIU, eftir að hún féll á lyfjaprófi.
Karlhormónið testosterón mældist í blóði Bekh-Romanchuk, sem er í fremstu röð í heiminum í langstökki og þrístökki, eftir að hún fór í lyfjapróf í desember síðastliðnum.
Hin þrítuga Bekh-Romanchuk hefur til að mynda orðið Evrópumeistari í þrístökki árið 2022 og vann til silfurverðlauna á HM 2019 í langstökki og á HM 2023 en þá í þrístökki.
Hún verður í keppnisbann þar til í maí árið 2029 og missir því af næstu tveimur heimsmeistaramótum og Ólympíuleikunum í Los Angeles sumarið 2028.
Í úrskurði AIU segir að Bekh-Romanchuk hafi haldið því fram að ástæðan fyrir háu magni testosteróns í blóði hennar væri vegna meðhöndlunar við óuppgefnum sjúkdómi en ekki þótti sýnt fram á það.