Volodimír Selenskí Úkraínuforseti færði Donald Trump Bandaríkjaforseta golfkylfu að gjöf á fundi þeirra í Hvíta húsinu í gær. Kylfan var áður í eigu úkraínsks hermanns sem hafði barist í innrásarstríði Rússa.
Um er að ræða pútter
Trump, sem stundar golf af miklu kappi, þáði gjöfina og færði Selenskí á móti táknræna lykla að Hvíta húsinu.
Gjöfin markar ákveðna breytingu í samskiptum Trumps og Selenskís frá því þeir funduðu síðast í Hvíta húsinu í febrúar en þá var Selenskí vísað á dyr eftir snörp orðaskipti þeirra á milli.
„Ég veit mikið um golf og sveiflan þín er frábær“
Eins og fyrr segir var kylfan áður í eigu úkraínsks hermanns en hann heitir Kostiantyn Kartavtsev. Hann missti annan fótinn í upphafi innrásarstríðs Rússa en hann stundar áfram golf af kappi með aðstoð gervifóts.
Selenskí sýndi Trump myndskeið af Kartavtsev. Úkraínsk samtök fyrrverandi hermanna hafa nú birt myndskeið af Trump þar sem hann hélt á golfkylfunni og þakkaði Kartavtsev.
„Ég horfði á sveifluna þína. Ég veit mikið um golf og sveiflan þín er frábær. Þú ert ótrúleg manneskja og þú skalt bara halda áfram að spila golf og gera allt hitt,“ sagði Trump í myndskeiðinu.