Sante ehf., sem selur áfengi í netverslun, hefur kært fyrirtækið Heinemann Travel Retail Ice ehf. til lögreglu vegna þess sem fyrirtækið segir ólöglegrar smásölu á áfengi í tollfrjálsri verslun á Keflavíkurflugvelli.
Í fréttatilkynningu er vísað til þess að hið opinbera – í gegnum Áfengis og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) og áður Fríhöfnina ehf. í eigu Isavia – hafi haft einkarétt á hefðbundinni smásölu á áfengi.
„Það hefur verið viðurkennt með skýrum ákvæðum í áfengislögum og lögum um ÁTVR og staðfest hefur verið af stjórnvöldum sjálfum að rekstur Fríhafnarinnar var ríkiseinkasala.Þrátt fyrir þetta hefur Heinemann, einkarekið fyrirtæki, nú gert samning við opinbera hlutafélagið Isavia um rekstur hefðbundinnar smásölu á áfengi á Keflavíkurflugvelli,“ segir í fréttatilkynningu frá Sante.
Er á það bent að löggjafinn hafi aldrei tekið til umfjöllunar, hvað þá samþykkt, að heimila einkaaðilum að reka smásöluverslanir með áfengi.
Eins og fram hefur komið er Sante eitt þeirra fyrirtækja sem kært hefur verið fyrir sölu áfengis í gegnum netverslun sína. Telur fyrirtækið að tilvera Heinemann á markaði vera til marks um að lögum sé beitt með mismunandi hætti gagnvart aðilum.
Ójafnræði í lagaframkvæmd
„Aðrir sem reynt hafa að starfrækja löglega netverslun með áfengi hafa þurft að sitja undir rannsókn lögreglu og eiga nú yfir höfði sér ákæru. Á sama tíma hefur Heinemann fengið að reka sína starfsemi án afskipta þrátt fyrir að um sé að ræða augljóst lögbrot, í skjóli samnings við opinbert hlutafélag,“ segir í tilkynningu Sante.
Er á það bent að sömu lög séu í Reykjavík og á Keflavíkurflugvelli.
„Þetta jafngildir því að stjórnvöld hafi í framkvæmd afnumið einokun hins opinbera á smásölu á áfengi, en aðeins fyrir einn einkaaðila – Heinemann. Með þessu er komið á tvöföldu réttarkerfi þar sem einn aðili fær undanþágu sem öðrum er meinuð,“ segir í tilkynningu.
Stjórnvöld í reynd afnumið einkarétt
„Þó svo að stjórnvöld hafi í reynd afnumið einkarétt hins opinbera á smásölu á áfengi með því að framselja hann til Heinemann, er okkur nauðugur sá kostur að kæra fyrirtækið. Að öðrum kosti ríkir tvöfalt réttlæti þar sem sumir njóta undanþágu en aðrir sæta refsingu. Ef lögum er beitt harðar á suma en aðra, þá er réttarkerfið orðið að valdakerfi,“ segir að lokum.
Undir þetta rita þeir Arnar Sigurðsson og Elías Blöndal Guðjónsson fyrir hönd Sante.