Framtakssjóður sem Aldir eiga hefur keypt helmingshlut í líftæknifyrirtækinu Algalífi. Heiðar Ingi Ólafsson sjóðstjóri er nýr stjórnarformaður hjá Algalífi og segir hann standa til að sækja fram og efla félagið enn frekarar en mikil tækifæri bíði á markaðnum. Kaupverðið er trúnaðarmál.
„Við höfum lengi fylgst með félaginu enda hefur það verið í umræðunni. Samtal okkar hófst formlega síðasta haust en fyrirtækið var þá í miklum framkvæmdum. Við sýndum því áhuga að koma að fyrirtækinu og það var hljómgrunnur fyrir því að taka það samtal lengra. Síðan höfum við verið í virku samtali um hvort aðilar hafi sameiginlega framtíðarsýn og gætu náð saman. Við höfum verið að kynna okkur félagið og núverandi eigendur hafa verið móttækilegir fyrir hugmyndum okkar. Þannig að samtalið gekk vel og lauk með því að við náðum endanlega saman fyrr í sumar,“ segir Heiðar Ingi.
„Félagið er með stækkuninni að margfalda framleiðslugetu sína. Við gerum ráð fyrir að tekjurnar verði yfir 30 milljónir dala þegar búið er að skala núverandi framleiðslugetu upp að fullu, sem væri þá um þreföldun frá síðasta ári,“ bætir Heiðar Ingi við.
Ítarlega er rætt við Heiðar Inga, Andres K. Flaaten, sem átti helmingshlut í Algalífi, og Orra Björnsson forstjóra félagsins í ViðskiptaMogganum í dag.