Í morgun hófst verkefni sem stjórnendur sveitarfélagsins Kiruna í Norrbotten í Norður-Svíþjóð hafa undirbúið af kostgæfni ásamt verktökum sem það annast.
Þetta er flutningur kirkju bæjarins, sem vegur 672 tonn, en vegna námuvinnslu á svæðinu þarf að færa stóran hluta Kiruna þrjá kílómetra í austurátt í stórvirki sem kostar sænska ríkið þrettán milljarða króna, jafnvirði 166,6 milljarða íslenskra króna.
Námufyrirtækið LKAB hefur um árabil unnið málmgrýti úr gjöfulum námum sem að hluta ná undir byggð bæjarins og er nú talið að berggrunnurinn þar undir sé orðinn of óstöðugur til að borgi sig að þar hvíli mannabyggð ofan á. Er flutningurinn hluti af stærra skipulagsverkefni í Kiruna sem áætlað er að ljúki árið 2035.
Hreyfingin vart greinanleg
Flutningur kirkjunnar hófst í morgun með því að byggingin, sem er frá árinu 1912, hönnun hins kunna sænska arkitekts Gustav Wickman, var lögð ofan á stóra stálbjálka á hjólum en það er norska verktakafyrirtækið Veidekke sem annast flutninginn.
Er áfangastaðurinn í fimm kílómetra fjarlægð og lýkur akstrinum þangað ekki fyrr en á morgun þar sem 40 metra breið kirkjan færist gegnum bæinn með 0,5 kílómetra hraða miðað við klukkustund og er hreyfing hennar svo hæg að vart er greinanlegt með berum augum eftir því sem einn fjölmargra áhorfenda greinir norsku NTB-fréttastofunni frá.
„Það er ótrúlega heillandi hve mikið maður leggur á sig til þess að varðveita svo gamla og stóra byggingu,“ segir Marius Mathisen frá Narvik í Noregi sem í fimm ár hefur unnið við flutningaáætlunina í Kiruna og kveðst Jimmy Bengtsson forstjóri Veidekke mjög stoltur af því að LKAB hafi valið fyrirtækið til að annast flutning byggingar sem almennt er talin meðal þeirra fegurstu í Svíþjóð.
Verðmiðinn leyndarmál
Segir sænska ríkisútvarpið SVT frá því að stjórnendur námufyrirtækisins kjósi að halda þeirri upphæð fyrir sjálfa sig sem Veidekke setur á reikninginn fyrir kirkjuflutninginn. „Verðmætið liggur í þeirri menningarbyggingu sem við nú flytjum,“ segir Stefan Holmblad Johansson, verkefnisstjóri hjá LKAB, við norska ríkisútvarpið NRK.
Einna helst var óttast að stíf vindátt eða mikil úrkoma setti strik í reikninginn, enn sem komið er gengur flutningur kirkjunnar þó að óskum og gera áætlanir ráð fyrir að hún verði hífð yfir á nýjan grunn á morgun eftir 113 ár á sama stað.