Húsnæðis- og mannvirkjastofnun vekur athygli á innköllun á hættulegum loftpúðum, í bílum sem framleiddir voru á árunum 1998 til 2019.
„Um er að ræða stærstu innköllun vegna ökutækja frá upphafi en yfir 100 milljóna loftpúða hafa verið innkallaðir alls staðar í heiminum,“ segir í tilkynningu stofnunarinnar.
Tekið er fram að innköllunin hafi átt sér stað fyrir mörgum árum en að svo virðist sem of margir eigendur bíla hérlendis hafi ekki brugðist við innkölluninni.
Fólk hafi samband við umboð bílanna
Þegar umræddir loftpúðar springi geti myndast sprengiflísar sem springi framan í fólk. Vitað sé um 35 dauðsföll um allan heim vegna þessara gölluðu loftpúða. Töluverður fjöldi bíla sem er í notkun hérlendis hafi ekki skilað sér í innköllun.
„Því vill HMS ítreka við eigendur eldri bíla að kanna stöðuna á sínum bíl. Ef þú átt eldri bíl sem passar við lýsingu hér að neðan og ert óviss um hvort bíllinn þinn hafi verið innkallaður skaltu hafa samband við viðeigandi umboð og leita ráða,“ segir í tilkynningunni.
Langur listi fylgir í kjölfarið, en innköllunin er sögð geta átt við um eftirfarandi bílategundir sem framleiddar voru á árunum 1998 til 2019.
- Acura
- Audi
- BMW
- Cadillac
- Citroën
- Chevrolet
- Chrysler
- Daimler
- Dodge/Ram
- Ferrari
- Ford
- GMC
- Honda
- Infiniti
- Jaguar
- Jeep
- Land Rover
- Lexus
- Lincoln
- Mazda
- McLaren
- Mercedes-Benz
- Mercury
- Mitsubishi
- Nissan
- Pontiac
- Saab
- Saturn
- Scion
- Subaru
- Toyota
„Ef þú hefur hunsað tilkynningu umboða um innköllun eða hún farið fram hjá þér þá skaltu hafa samband strax við viðeigandi umboð og bóka tíma þér að kostnaðarlausu.“
Bílaumboðið Hekla bendir á að viðskiptavinir Heklu geti flett upp öllum upplýsingum varðandi innkallanir á bílum sínum á heimasíðu Heklu og á Mínu Torgi.