þri. 19. ágú. 2025 14:58
Bubbi Morthens.
Bubbi: „Hróa hattar-bragur“ á þessu

Tónlistarmaðurinn Ásbjörn Kristinsson, betur þekktur sem Bubbi Morthens, virðist nokkuð sáttur við þjófana sem notuðu stóra vinnuvél til að stela hraðbanka sem var staðsettur í Þverholti í Mosfellsbæ í nótt ef marka má nýjustu færslu hans á samfélagsmiðlum.

„Það er einhver Hróa hattar-bragur á því að ræna banka með gröfu, þó að ég mæli ekki með því bót, en hvernig bankarnir haga sér í skjóli ríkisstjórnar Íslands þá er hráleiki brotsins og framkvæmd þess á sinn hátt fallegt andsvar,” skrifar tónlistarmaðurinn á Facebook.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/19/hradbanka_stolid_i_mosfellsbae/

Þó nokkrir hafa ritað athugasemdir við færsluna og taka undir orð Bubba.

„Ræna þá sem ræna okkur,“ skrifar einn. „Já, bankar eru bara þjófafyrirtæki og ekkert annað! Við erum tilneydd að vera í banka með peningana/ færslurnar okkar, og svo kalla þau okkur viðskiptavini,“ skrifar annar.

„Loksins alvöru „heist“ með alvöru verkfærum!“ skrifar sá þriðji.

Hrói höttur, er eins og flestir vita, íslenska heitið á sögupersónunni Robin Hood, hinum fræga réttlætisþjófi, sem stal frá þeim ríku og gaf ránsfenginn til hinna fátæku.

Ólíklegt þykir að hraðbankaþjófarnir muni feta í fótspor Hróa hattar og halda í leiðangur og setja krónuseðla í póstkassa þeirra sem teljast fátækir hér á landi, en hver veit?

 

 

til baka