þri. 19. ágú. 2025 13:53
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra.
Skiptir Íslendinga gríðarlegu máli

Það mikilvægasta sem kom út úr fundi Evrópuleiðtoga með Donald Trump Bandaríkjaforseta í gær voru öryggistryggingar í þágu Úkraínu af hálfu Bandaríkjamanna og að halda skuli tvíhliða og þríhliða fundi um frið í Úkraínu.

afa

Þetta var rætt á fjarfundi sem Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra sat í morgun með Evrópuleiðtogum um fund þeirra með Trump og Volodimír Selenskí Úkraínuforseta í gær. Fjarfundurinn snerist um að fá að vita hvernig fundurinn í gær gekk og að samhæfa skilaboð leiðtoganna út á við til að halda áfram sameiginlegum þrýstingi á Rússa frá bandalagi viljugra þjóða.

afa

Þarf að vera fælingarmáttur

„Aðalatriðin sem koma út úr fundinum með Bandaríkjamönnum og forseta er kannski fyrst og fremst sá að það eru komin skýr merki og vilji til þess að taka þátt í svokölluðum öryggisskuldbindingum. Á mannamáli þýðir þetta að ef það verður samið um frið þá er rík og djúp saga á þessu svæði um að Rússland virði ekki slíkan frið. Það þarf að vera einhver fælingarmáttur, það þurfa að vera einhverjar forsendur fyrir því að ytri aðilar veiti tryggingar til þess að það hafi afleiðingar að rjúfa slíkan frið og Bandaríkjamenn hafa meldað sig inn í það og það skiptir miklu máli,” segir Kristrún, sem ræddi við blaðamann að loknum fjarfundinum.

afa

Aðstoð sem hentar Íslandi 

Spurð út í aðkomu Íslands að öryggistryggingunum segir hún Ísland hafa boðið fram aðstoð á því stigi sem hentar okkur.

„Við höfum verið mjög sterk á ákveðnum borgaralegum sviðum þegar kemur að upplýsingaflæði, við höfum líka verið að sinna þjálfun og öðru slíku þannig að það er vel hægt að finna verkefni sem henta okkur,” svarar Kristrún.

 

Landamærum ekki breytt með afli 

Hún segir að í lok dags sé það Úkraínumanna að semja um eigin framtíð en öll aðkoma Evrópuleiðtoga og fleiri leiðtoga snúist um að styðja við bakið á þeim í slíkum viðræðum, vera með sameiginleg skilaboð og veita þrýsting.

„Þetta skiptir okkur Íslendinga alveg gríðarlega miklu máli því þrátt fyrir að þessi átök séu kannski fjarri okkur landfræðilega þá getum við ekki skapað þau fordæmi í nútímasögu að það sé hægt að breyta landamærum með afli. Við erum lítil, herlaus þjóð en við höfum líka ákveðnar skuldbindingar þegar kemur að þátttöku í slíku alþjóðastarfi að setja þrýsting á þessar þjóðir.”

 

Rússlandsforseti sem dregur lappirnar

Spurð út í hljóðið í leiðtogunum um hversu vongóðir þeir séu um að friðarsamkomulag náist segir hún tóninn hafa verið jákvæðan. Jákvætt sé að Bandaríkjamenn hafi samþykkt að taka þátt í öryggistryggingum og að tví- og þríhliða fundir verði haldnir.

afa

„En fólk er raunsætt. Fólk áttar sig alveg á því að Rússlandsforseti hefur átt það til að draga lappirnar og er að leika annan leik en þær þjóðir sem standa núna hvað stærst saman,” segir hún en nefnir að mikil staðfesta sé í hópnum um að halda áfram að setja þrýsting á Rússa ef engin framþróun verði í málinu, meðal annars með áframhaldandi viðskiptaþvingunum.

afa

afa

 

Djúp mannúðarkrísa í Úkraínu

Spurð segist Kristrún hafa sett fram þau skilaboð á síðustu fundum sínum með þjóðarleiðtogum að Ísland haldi áfram að vera mikill stuðningsmaður Úkraínu og að staðið verði við þau fjárframlög sem hafi verið samþykkt til að styðja við bakið á landinu.

afaf

Hún bætir við: „Það er mikið rætt um varnartengdan stuðning, borgaralegan stuðning og annað slíkt en það er djúp mannúðarkrísa sem á sér líka stað í Úkraínu. Það eru um 20 þúsund börn sem hefur verið rænt af sínum heimilum og er verið að þvinga í ættleiðingu í Rússlandi. Þetta er líka fordæmi sem við getum ekki leyft að skapist í stríðsrekstri. Þess vegna skiptir máli að þetta sé eitt af því sem við sköpum mikinn þrýsting á Rússa og Íslendingar geta alveg sett sitt mark á þá umræðu.”

afa

 

Sjaldan meiri samstaða 

Kristrún segir að sérstaklega hafi verið talað um það á fjarfundinum á meðal reynslubolta að þeir hafi sjaldan séð jafnmikla staðfestu og samhæfingu á meðal jafn fjölbreyttra þjóða varðandi stuðning þeirra við Úkraínu.

„Þetta er að skila sér í þrýstingi þó svo að við séum ekki á þeim óskastað sem við myndum vilja vera á í þeim aðstæðum sem við erum,” segir forsætisráðherrann.  

 

 

 

til baka