Vart hefur orðið við aukna jarðskjálftavirkni í Brennisteinsfjöllum frá því umbrotin hófust á Reykjanesskaga árið 2020. Þykir hún til marks um aukna söfnun spennu í jarðskorpunni.
Veðurstofan bendir á þetta í tilkynningu í kjölfar skjálftans sem reið yfir upp úr klukkan 18 í gær, en hann fannst víða á höfuðborgarsvæðinu.
„Hafa ber í huga að sterkir jarðskjálftar verða endurtekið á þessu svæði, en þó með löngu millibili, og alls óvíst hvenær þeir verða næst,“ segir Veðurstofan.
Síðustu stóru skjálftarnir á svæðinu voru 6,4 að stærð árið 1929 og 6,1 að stærð árið 1968.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/01/31/kominn_timi_a_annan_brennisteinsfjallaskjalfta/
Byggingarstaðlar styrkst
Síðan þá hafa byggingarstaðlar styrkst stöðugt með sífellt meiri kröfum til jarðskjálftahönnunar húsa. Skjálftar af þessari stærð hefðu þó veruleg áhrif, svo sem með grjóthruni í bröttum hlíðum og með því að hreyfa við innanstokksmunum.
Tekið er fram að sjaldgæft sé að fólk slasist í jarðskjálftum hér á landi, og þá oftast vegna lausamuna.
„Á jarðskjálftasvæðum er því gott að hafa reglulega í huga hvaða fyrirbyggjandi aðgerðir hægt sé að gera til að minnka líkur á tjóni, huga að lausamunum s.s. að þungir hlutir séu ekki staðsettir yfir rúmum o.s.frv., ásamt því að rifja upp leiðbeiningar um viðbrögð í jarðskjálftum.“
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2024/01/29/brennisteinsfjoll_byrsta_sig/