Dagskrá menningarnætur mun ljúka klukkustund fyrr en síðustu ár og öryggisgæsla á hátíðinni verður aukin með það að markmiði að gera dagskrá hennar fjölskylduvænni.
„Í okkar huga er menningarnótt fjölskylduhátíð og þess vegna erum við að taka þetta skref að stytta dagskránna um klukkustund miðað við það sem var í fyrra því við teljum að tímasetningin tíu sé fjölskylduvænni en tímasetningin ellefu,“ segir Björg Jónsdóttir, verkefnastjóri menningarnætur, í samtali við mbl.is og bætir við:
„Skilaboðin okkar eru sú að fjölskyldan og vinir geti farið saman í miðborgina og notið fjölbreyttra viðburða og svo fari bara allir heim. Saman í bæinn og samferða heim, það er okkar áhersla.“
Í þessu samhengi ítrekar Björg að foreldrar beri ábyrgð á börnum sínum og unglingum og að þess vegna sé mikilvægt að taka þau með sér heim.
Stemma stigum við aukna drykkju
Þá segir Björg að aukin öryggisgæsla verði á viðburðinum í ár en það er meðal annars gert til að stemma stigu við aukna unglingadrykkju í samfélaginu síðustu ár og alvarlegra ofbeldi meðal ungmenna.
„Við verðum með fleiri svokallaða gönguhópa sem að samanstanda af samfélagslögreglu og starfsfólki úr félagsmiðstöðvum. Þeir verða á vappi til að styðja við og aðstoða ungmenni, eru þeim til halds og trausts,“ segir Björg og bætir við að lögregla og aðrir viðbragðsaðilar verði með allt sitt fólk á vettvangi.
Að lokum bendir hún á að það ætti að vera lítið mál fyrir fjölskyldur að koma sér heim eftir að hátíðarhöldum líkur með flugeldasýningu á Arnarhóli klukkan 22.
Þá munu strætisvagnar ganga frá miðborginni í öll hverfi borgarinnar en sú þjónusta er gjaldfrjáls.
Menningarnótt fer fram á laugardaginn en dagskrá hennar og aðrar upplýsingar má nálgast á heimasíðu hátíðarinnar.