Russ Cook, betur þekktur sem Hardest Geezer, hefur lokið tveggja daga boðhlaupi með sex öðrum hlaupurum eftir norðurströnd Íslands. Samtals hlupu þau 607 kílómetra frá Hraunhafnartanga til Hallgrímskirkju í Reykjavík.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/04/08/eg_er_frekar_threyttur/
Cook, sem er 28 ára og kemur frá Worthing í Englandi, vakti heimsathygli í fyrra þegar hann hljóp alla leið yfir Afríku á 352 dögum.
„Ég hef tekist á við sum af erfiðustu einstaklingshlaupunum, en Mission Iceland var algjörlega nýtt fyrir mér,“ sagði hann í samtali við BBC.
Erfitt umhverfi á Íslandi
„Að vera hluti af liði sem kláraði svona langa vegalengd í þessu erfiða umhverfi hefur verið algjörlega ótrúlegt. Það hvatti mig til að hlaupa hraðar og leggja meira á mig en nokkru sinni fyrr,“ sagði hann.
Með Cook í hlaupinu voru sex reyndir úthaldshlauparar. Þar á meðal voru William Goodge, sem á að hafa sett heimsmet í hlaupi þvert yfir Ástralíu, breski landsliðshlauparinn Alfie Manthorpe og Hercules Nicolaou, sem hljóp meðfram Adríahafsströndinni. Hyrox-íþróttamennirnir Jake Dearden og Lucy Davis tóku einnig þátt.
Verkefnið var skipulagt af George Heaton, stofnanda breska tískumerkisins Represent, sem einnig tók þátt í hlaupinu.
Heaton sagði í samtali við BBC að áskorunin hefði verið gífurlega krefjandi. „Að hlaupa yfir 600 kílómetra í einu erfiðasta landslagi heims var nokkuð sem ég vissi að yrði erfitt, en engu að síður framkvæmanlegt. Ég hefði aldrei náð þessu án besta liðs í heimi, Team 247.“
Í fyrra lauk Russ Cook stærstu þrekraun sinni til þessa, þar sem hann safnaði yfir milljón pundum til góðgerðarmála með því að hlaupa alla leið frá syðsta odda Suður-Afríku til Túnis.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/07/06/hleypur_a_alla_leiki_englands_eftir_afrikureisuna/
Hlaupinu, sem hófst 22. apríl 2023, lauk eftir rúmlega 16 þúsund kílómetra vegalengd, þrátt fyrir vegabréfsáritunarvandamál, veikindi, vopnað rán og pólitískar hindranir á leiðinni.