þri. 19. ágú. 2025 12:10
Jens Garðar Helgason, Hanna Katrín Friðriksson og Dagur B. Eggertsson.
Tekjuhæstu alþingismennirnir og ráðherrarnir

Jens Garðar Helgason, alþingismaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, var með 2,8 milljónir í mánaðartekjur á síðasta ári og er því hæst launaði alþingismaðurinn samkvæmt úttekt Frjálsrar verslunar.

Vert er þó að nefna að Jens var aðstoðarforstjóri Kaldvíkur áður en hann var kosinn inn á þing í nóvember í fyrra.

Þetta kemur fram í tekjublaðinu þegar litið er yfir laun forseta, alþingismanna og ráðherra.

 

Á eftir Jens kemur Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra og alþingismaður Viðreisnar, með liðlega 2,7 milljónir í mánaðartekjur. 

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar og forsætisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og utanríkisráðherra, og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins og félags- og húsnæðismálaráðherra, voru allar með tæpa 2,1 milljón króna í tekjur. 

 

Katrín með rúmlega 2,4 milljónir

Dagur B. Eggertsson, alþingismaður Samfylkingarinnar og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, var með um 2,7 milljónir í laun.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fyrrverandi félags- og vinnumarkaðsráðherra, og Bjarni Benediktsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, voru báðir með rúmlega 2,6 milljónir í mánaðartekjur í fyrra.

Þá var Birgir Ármannsson, fyrrverandi forseti Alþingis, með um 2,5 milljónir í tekjur og Katrín Jakobsdóttir, fyrrverandi formaður Vinstri grænna og forsætisráðherra, með rúmlega 2,4 milljónir í tekjur.

 

Ólafur Ragnar launahæstur

Þegar litið er yfir fyrrverandi forseta þjóðarinnar má sjá að Ólafur Ragnar Grímsson var með rúmar 4,7 milljónir í mánaðartekjur í fyrra.

Þar á eftir kemur Guðni Th. Jóhannesson en hann var með um 3,6 milljónir.

Þá var Vigdís Finnbogadóttir með rúmlega 3,1 milljón í tekjur.

Í tekju­blaði Frjálsr­ar versl­un­ar eru birt­ar tekj­ur 5.450 ein­stak­linga víðs veg­ar á land­inu og bygg­ist könn­un­in á álögðu út­svari eins og það birt­ist í álagn­ing­ar­skrám. Frjáls versl­un árétt­ar þó að í ein­hverj­um til­vik­um kunni skatt­stjóri að hafa áætlað tekj­ur.

Uppfært kl. 13:13

Vegna tekjuupplýsinga um Hönnu Katrínu Friðriksson atvinnuvegaráðherra kom aðstoðarmaður hennar því á framfæri að hún hefði tekið út séreignasparnað á síðasta ári vegna íbúðarkaupa, og að öðru leyti hefði hún verið á hefðbundnum þingfararkaupi.

til baka