Þyrlur Landhelgisgæslunnar eru að sinna tveimur útköllum þessa stundina.
Eftir um það bil 20 mínútur lendir önnur þyrlan við Landspítalann í Fossvogi með veikan skipverja af rússnesku fiskiskipi og hin er í útkalli vegna konu sem slasaðist við göngu við Hrafntinnusker.
Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við mbl.is að í gær hafi rússneska fiskiskipið haft samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Skipið var þá statt 600 sjómílur suðvestur af Reykjanestá.
Ásgeir segir að skipið hafi verið beðið um að halda nær landi og sigla inn í íslenska efnahagslögsögu svo þyrlan gæti sótt manninn. Hann segir að við kringumstæður sem þessar þurfi að kalla út tvær þyrlur þar sem önnur þyrlan sjái um útkallið sjálft en hin þyrlan sé til taks til vonar og vara.
Þyrlan sem annaðist útkallið fór 120 sjómílur og mætti þar skipinu og sótti skipverjann og lendir þyrlan við Landspítalann á næsta hálftímanum.
Annað útkall barst svo Landhelgisgæslunni á tólfta tímanum vegna konu sem slasaðist á göngu við Hrafntinnusker og fór þyrlan sem var til taks í fyrra útkallinu í það verkefni.