Leikur FH og Breiðabliks í bikarúrslitum kvenna í fótbolta síðastliðinn laugardag var hin mesta skemmtun og góð auglýsing fyrir íslenska knattspyrnu í kvennaflokki.
Ekki var hægt að kvarta yfir fimm mörkum, fullt af færum, dramatík og heilt yfir bráðskemmtilegum leik.
Úrslitin réðust í framlengingu og var hún betri en margar aðrar framlengingar. Framlenging í fótbolta er 30 mínútur og þótt hún hafi verið góð á Laugardalsvelli á laugardaginn er framlenging í fótbolta almennt allt of löng.
Að spila þriðjung leiksins aftur þegar allir eru orðnir þreyttir er ekki sérlega góð hugmynd og úr takti við aðrar íþróttir.
Að mínu mati væri það góð hugmynd að stytta framlengingu um helming og sleppa hálfleiknum í framlengingu.
Ef við berum framlengingu í fótbolta saman við framlengingar í öðrum íþróttum er augljóst að fótboltinn er ekki í neinum takti.
Framlenging í körfubolta er fimm mínútur, eða einn áttundi af venjulegum leiktíma.
Framlenging í handbolta er samtals tíu mínútur, eða einn sjötti af venjulegum leiktíma.
Framlenging í íshokkí er fimm mínútur, eða einn tólfti af venjulegum leiktíma.
Framlenging í amerískum ruðningi er tíu mínútur, eða einn sjötti af venjulegum leiktíma.
Framlenging í fótbolta er 30 mínútur, einn þriðji af venjulegum leiktíma. Eins og áður segir er það ekki í neinum takti við aðrar íþróttir. Bakvörður veit ekki um neinn sem er sérlega spenntur þegar framlengja þarf fótboltaleiki.