þri. 19. ágú. 2025 12:20
Varnarmaðurinn Ingibjörg Sigurðardóttir í baráttunni gegn Noregi í lokaleik íslenska liðsins í A-riðli Evrópumótsins í Thun í Sviss í sumar.
Félag á mikilli uppleið

Knattspyrnukonan Ingibjörg Sigurðardóttir gekk nokkuð óvænt til liðs við þýska 1. deildar félagið Freiburg á dögunum.

Ingibjörg, sem er 27 ára gömul, gekk til liðs við þýska félagið frá Bröndby í Danmörku þar sem hún hafði leikið frá því í september árið 2024.

Miðvörðurinn hefur einnig leikið með Djurgården í Svíþjóð, Vålerenga í Noregi og Duisburg í Þýskalandi á atvinnumannaferlinum og þá á hún að baki 78 A-landsleiki þar sem hún hefur skorað tvö mörk.

„Ég er mjög spennt fyrir komandi tímabili,“ sagði Ingibjörg í samtali við Morgunblaðið en hún skrifaði undir tveggja ára samning við þýska félagið sem keypti hana af Bröndby.

„Þetta er mjög spennandi verkefni og ég er þakklát fyrir það að félagaskiptin hafi gengið í gegn. Hlutirnir hafa gengið ansi hratt fyrir sig síðustu daga. Ég heyrði fyrst af áhuga þýska félagsins fyrir nokkrum dögum og viku seinna var ég búin að skrifa undir samning við þá.

Ég átti mjög góðan fund með forráðamönnum félagsins þar sem þeir fóru yfir sínar áherslur og framtíðarsýn. Forráðamenn Bröndby sýndu mér mikinn skilning í öllu ferlinu og þetta gekk því bæði hratt og örugglega fyrir sig,“ sagði Ingibjörg.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

til baka