þri. 19. ágú. 2025 11:28
Vestmannaey heldur hér til veiða en í gær landaði hún 60 tonnum á Djúpavogi.
Lönduðu 120 tonnum á Djúpavogi

Togararnir Vestmannaey VE og Bergey VE komu báðir til hafnar á Djúpavogi í gær þar sem þeir lönduðu samtals um 120 tonnum af fiski. Skipin voru kölluð inn þar sem hráefni vantaði í vinnslu Vísis í Grindavík.

Þokkalegur túr hjá Vestmannaey

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, segir túrinn hafa gengið þokkalega. „Byrjað var á að taka tvö hol á Vík og Pétursey og síðan var haldið á Höfðann.“ Hann bætir við að veðrið hafi þó versnað verulega við Höfðann og því hafi verið tekin ákvörðun um að sigla í austur. Ágætis afli segir hann þó hafa fengist á Hvalbakshallinu og Utanfótar en aflinn samanstóð að mestu af ýsu og þorski. Þá var siglt á Djúpavog og landað rúmum 60 tonnum.

Bergey með svipaðan afla

Svipaða sögu var að segja af Bergey en Jón Valgeirsson skipstjóri segir að haldið hafi verið til veiða á föstudagsmorgun og byrjað á Höfðanum en lítið hafi verið um að vera þar. Því hafi skipinu verið siglt austur og mest veitt á Grunnfætinum og Utanfótar. Þar hafi fengist ágætur afli, mest þorskur og ýsa. „Þarna var þokkalegasta nudd og haldið var til lands með um 60 tonn. Ég reikna með að fara eitthvað vestur eftir að löndun lokinni,” sagði Jón að lokum.

til baka