Karlmaður, sem hafði réttarstöðu sakbornings í Gufunesmálinu svokallaða, stal riffli úr verslun nokkrum dögum áður en málið kom upp og taldi lögregla að hann hefði ætlað að nota hann í tengslum við þau brot sem áttu sér stað.
Þetta kemur fram í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur um heimild til að rannsaka gögn úr síma mannsins, sem Landsréttur staðfesti í mars. Úrskurðurinn var þó ekki birtur fyrr en nýlega.
Maðurinn stal rifflinum úr verslun í lok febrúar en hann fannst í bíl hans tveimur dögum síðar og var þá búið að bæta á hann hljóðdeyfi og fæti. Var maðurinn þá handtekinn og lagði lögregla hald á síma hans. Hann játaði svo þjófnaðinn við skýrslutöku hjá lögreglu.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/08/17/bladavidtal_lagt_fram_i_gognum_gufunesmalsins/
Ekki einn þeirra ákærðu
Fimm einstaklingar voru ákærðir í Gufunesmálinu en maðurinn er ekki einn þeirra. Fólkinu er gefið að sök að hafa numið karlmann á brott af heimili sínu í Þorlákshöfn, beitt hann margvíslegu ofbeldi og haft af honum fé. Maðurinn var svo skilinn eftir á leikvelli í Gufunesi þar sem hann fannst illa á sig kominn og lést hann skömmu síðar af sárum sínum.
Lögreglan krafðist þess að fá aðgang að farsímagögnum mannsins til rannsóknar þar sem hann var talinn hafa átt sér samverkamenn við þjófnaðinn á skotvopninu og vegna tengsla hans við Gufunesmálið sem þá var til rannsóknar hjá lögreglu.
Taldi lögregla mikilvægt fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að fá heimild til að rannsaka efnisinnihald símans til að upplýsa bæði brotin, skipulagningu þeirra, ætlaða samverkamenn og afla sönnunargagna.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/23/sakborningar_i_gufunesmalinu_neita_allir_sok/
Vildi ekki afhenda símann vegna fyrri brota
Maðurinn neitaði lögreglu alfarið um aðgang að símanum. Í fyrstu sagði hann að þar væru persónulegar upplýsingar. Síðar sagði hann ástæðu neitunar sinnar að hann vildi ekki að lögregla gæti séð aftur í tímann atriði þar sem hann hefði mögulega brotið af sér.
Héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu lögreglunnar og staðfesti Landsréttur þann úrskurð.