Að minnsta kosti 27 manns eru látnir í Benín í Vestur-Afríku eftir að rúta fór út af brú og hafnaði í Oueme-ánni um nýliðna helgi.
Abdel Aziz Bio Djibril, forstjóri almannavarna í Benín, segir í viðtali við útvarpsstöðina Bib Radio að björgunaraðilar hafi fundið 23 lík inni í rútunni sem var dregin upp úr vatninu og þrjú lík til viðbótar í ánni. Þau bætast við líkið sem fannst á sunnudag. Þrjú börn eru meðal þeirra látnu samkvæmt dagblaðinu La Nation.
Níu voru fluttir á sjúkrahús og er ástand þeirra stöðugt að hans sögn.
„Rútan féll beint ofan í vatnið en sökk ekki strax. Allir sem gátu reyndu að komast upp úr vatninu. Þeir sem gátu ekki synt og reyndu að flýja drukknuðu líklega,“ sagði Bio Djibril.