Vöruútflutningur frá Íslandi hefur aukist á árinu en vöruskiptahalli hefur aldrei verið meiri. Þetta stafar fyrst og fremst af miklum innflutningi á tölvubúnaði í tengslum við uppbyggingu gagnavera.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í Hagsjá Landsbankans, sem birt er í dag. Þar er bent á að þjónustuútflutningur hafi síðustu ár vegið upp á móti halla á vöruviðskiptum, en sú þróun hafi breyst. Frá árinu 2022 hefur halli á vöruviðskiptum aukist verulega, á meðan afgangur af þjónustuviðskiptum hefur ekki vaxið að neinu ráði. Innflutningur á bæði vörum og þjónustu hefur aukist, sem dregur úr heildarjöfnuði við útlönd.
Greining bankans bendir á að methallinn á vöruviðskiptum skýrist að mestu af innflutningi á tölvubúnaði vegna gagnavera. Þessi innflutningur hefur lítil áhrif á gjaldeyrisflæði þar sem hann er að mestu fjármagnaður af erlendum aðilum. Ef ekki væri fyrir þennan þátt væri hallinn líklega minni en í fyrra.