þri. 19. ágú. 2025 11:29
Rottan á brauðbrettinu, sem verður ekki aftur notað.
„Það er rotta í rúminu“: Annað útkallið á 15 árum

Sara Bjarney Ólafsdóttir og maðurinn hennar vöknuðu upp við vondan draum í nótt þegar stærðarinnar rotta var komin upp í rúm til þeirra.

„Hann vaknar við rottuna að skríða upp löppina á sér og bíður þangað til hún skríður frá svo hann geti vakið mig og segir mér að halda ró minni og fara fram með krakkana núna strax. Við vorum með þriggja ára strákinn okkar og eins árs stelpuna uppi í rúmi,“ segir Sara Bjarney, spurð út í þennan óboðna gest.

Kláraði málið með brauðbretti

Fjölskyldan býr í kjallaraíbúð í Laugarneshverfi og svo virðist sem rottan hafi komist inn um glugga.

„Hann veit að ég hefði fríkað út og hann vissi líka að rottan myndi ekki bregðast vel við ef það yrðu einhver læti, þannig að hann beið og reyndi að koma mér út og síðan labbar hann aftur inn, reynir að finna eitthvert áhald og finnur eitt af brauðbrettunum mínum, svo að hann skuldar mér eitt slíkt, hleypur inn og svo klárar hann bara málið þar inni,“ greinir Sara Bjarney frá, að vonum skelkuð eftir uppákomuna.

„Það er rotta í rúminu“

Fyrst taldi hún manninn sinn vera að dreyma þegar hann vakti hana. „En hann sagði mér bara: „Viltu fara fram með krakkana, það er rotta í rúminu.“

Hún segir atvikið hafa bæði verið martraðarkennt og ógeðslegt. Hún hafi ekki viljað fara aftur að sofa í nótt heldur setið með ljós og horft á hina í fjölskyldunni sofa, allt þar til stelpan hennar vaknaði um sexleytið.

Meiri líkur á að vinna í lottói

Meindýraeyðir á vegum Reykjavíkurborgar er búinn að sækja rottuna og sagði hann svona atvik afar sjaldgæf. Auðveldara væri að vinna í lottói en að fá rottu upp í rúm.

„Hann sagðist hafa fengið tvö svoleiðis útköll á síðustu 15 árum, miðað við þúsundir af rottutilkynningum, en ekki uppi í rúmi,“ segir Sara Bjarney, sem ætlar að láta setja net fyrir gluggana á íbúðinni.

Mikil viðbrögð á Facebook

Viðbrögð við færslu sem hún setti um atvikið á Facebook hafa að vonum verið mikil. Miðað við þau virðist sem einhvers konar rottufaraldur sé í gangi í hverfinu. Sjálf segist hún ekki hafa séð aðra rottu en þessa en að fólk hafi séð þær úti á götum og einhverjir tali um að þær hafi komið upp í tengslum við framkvæmdirnar að undanförnu við Grand hótel.

afaf

„Maðurinn minn er ekki alveg að skilja lætin út af þessu. Hann ólst upp á Filippseyjum og þetta er ekkert stórmál þar,“ segir hún og hlær þrátt fyrir skelfingu næturinnar. „Kannski fer ég og kaupi mér lottómiða.“

til baka