Emmanuel Macron Frakklandsforseti varar þjóðir Evrópu við því að treysta Vladimír Pútín Rússlandsforseta, sem hann kallar óvætti.
Macron lét ummælin falla á sama tíma og útlit er fyrir friðarviðræður á milli Pútíns og Volodimírs Selenskís Úkraínuforseta. Selenskí og Donald Trump Bandaríkjaforseti funduðu í gær.
„Pútín hefur sjaldan staðið við gefin loforð,” sagði Macron við fjölmiðilinn LCI. „Hann hefur með ítrekuðum hætti dregið úr stöðugleika. Hann hefur reynt að teikna upp ný landamæri til að auka völd sín.”
Macron kvaðst ekki trúa því að Rússland myndi „snúa aftur til friðar og lýðræðiskerfis á stuttum tíma”.
Pútín, „þar á meðal til að hann haldi sjálfur velli, þarf að halda áfram að éta”, sagði Macron. „Þetta þýðir að hann er rándýr, óvættur við hliðin okkar.”
Forsetinn bætti því við að þetta þýddi ekki að ráðist yrði á Frakkland á morgun en að Evrópu stafaði engu að síður ógn af Pútín.