þri. 19. ágú. 2025 10:53
Gladys Knight hefur verið á tónleikaferðalagi með Chaka Khan, Patti LaBelle, and Stephanie Mills.
Neitar ásökunum um öldrunarofbeldi

Bandaríska söngkonan Gladys Knight fullvissaði aðdáendur sína um að eiginmaður hennar til nærri 25 ára, William McDowell, væri hvorki að misnota né meiða hana í kjölfar þess að elsti sonur hennar, Shanga Hankerson, hélt því fram að McDowell hefði beitt söngkonuna áralöngu líkamlegu, andlegu og tilfinningalegu ofbeldi.

„Ég er heilbrigð og hamingjusöm“

Knight, 81 árs, sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í gærdag:

„Mér þykir afar leitt að heilsa mín og sviðsframkoma hafi verið rangtúlkuð. Ég vil að aðdáendur mínir og aðrir sem hafa áhyggjur geti verið öruggir um að mér líði mjög vel miðað við einhvern sem hefur verið á sviði í rúm 70 ár; erfitt að trúa, ekki satt,” sagði söngkonan og bætti við:

„Ég er heilbrigð og hamingjusöm og hef verið að heimsækja vini og fjölskyldu síðustu mánuði. Ég hlakka til að halda af stað í tónleikaferðalag með systrum mínum og stíga á svið með þessum drottningum. Sjáumst fljótlega.“

Umboðsmaður Knight, Laura Herlovich, neitaði einnig orðrómnum um ofbeldið og sagði í samtali við The Post að söngkonan og teymi hennar væru miður sín yfir ástæðulausum ásökunum Shanga, sérstaklega þar sem hann hefur ekki verið í miklu sambandi við móður sína síðustu ár.

„Á þessum tímapunkti hafa lögfræðingar okkar ekkert annað val en að kanna allar mögulegar lagalegar leiðir vegna ærumeiðandi ummæla Shanga,“ bætti Herlovich við.

„Af hverju er hún að vinna?“

Yfirlýsing Knight kom eftir að Hankerson, 49 ára, hélt því fram að móðir hans væri að verða fyrir öldrunarofbeldi af hálfu McDowell.

Í viðtali við Shade Room hélt Hankerson því fram að McDowell væri að þvinga móður sína til að fara í tónleikaferðalag þrátt fyrir versnandi heilsu hennar.

„Ég gerði mitt besta til að gefa [McDowell] svigrúm til að gegna hlutverki eiginmanns og gera það sem væri móður minni fyrir bestu, en hann hefur ekki gert það,“ fullyrti hann.

„Af hverju er hún að vinna? Af hverju er hún í þessari stöðu þar sem henni er talin trú um að hún þurfi að vinna svona? Það er í raun aðaláhyggjuefni mitt,“ sagði Hankerson og bætti við að hann grunaði McDowell um að vera „andlega og fjárhagslega“ ofbeldisfullan gagnvart Knight.

Lagði fram kvörtun

Hankerson, sem Knight á með tónlistarframkvæmdastjóranum Barry Hankerson, greindi frá því að hann hefði lagt fram kvörtun hjá félagsmálaráðuneyti Norður-Karólínu og að málið væri til skoðunar.

Knight og McDowell, sem er töluvert yngri en söngkonan, gengu í hjónaband í apríl 2001 eftir aðeins þriggja mánaða samband.

McDowell er fjórði eiginmaður söngkonunnar.

View this post on Instagram

A post shared by The Black Promoters Collective (@blackpromoterscollective)

 

 

til baka