þri. 19. ágú. 2025 10:00
Senja gamla hefur verið seld, þetta 45 ára gamla varðskip norska sjóhersins fær senn nýtt hlutverk í höndum fjárfestisins Bernts Hellesøe sem hyggst stefna því, þó óvopnuðu, gegn rússneskum njósnurum og sæstrengjaskemmdarvörgum.
Yfirvöld reki af sér slyðruorðið

Norski fjárfestirinn Bernt Hellesøe hefur keypt Senju, 45 ára gamalt strandgæsluskip sem afskráð hefur verið í bókum norska sjóhersins og endapunktur þar með settur aftan við áratugalanga þjónustusögu þess við hefðbundna strandgæslu. Hyggst hann stefna fleyinu gamla gegn rússneskum njósnurum.

Hellesøe, sem keypti skipið í mars í fyrra gegnum fyrirtækið Unitech Offshore, ætlaði því þá það hlutverk að verða rannsóknar- og skólaskip en hefur nú fundið því nýtt hlutverk í ljósi ágengni rússneskra njósnaskipa sem sigla um norska landhelgi undir fölsku flaggi sem rannsóknarskip og togarar á meðan áhafnir þeirra halda úti njósnum og leggja jafnvel á ráðin um skemmdarverk á norskum neðansjávarinnviðum.

https://www.mbl.is/frettir/erlent/2023/04/19/russneskir_ulfar_i_saudargaeru/

Senja ber nú nafnið RV North Star og þótt herinn hafi fjarlægt öll vopn gamla varðskipsins og verjur hyggst Hellesøe nú beita því gegn Rússum og skuggastarfsemi þeirra, meðal annars við að kortleggja legu neðansjávarstrengja og annars búnaðar.

„Íbúar Noregs eru mjög háðir nettengingum. Þegar sá dagur rennur að fjandríki gerir nægilega marga ljósleiðarastrengi ónothæfa mun landið verða óvirkt,“ segir fjárfestirinn í samtali við norska ríkisútvarpið NRK sem kveður Hellesøe ætla að gerast „njósnaraveiðimann“ eða „spionjeger“.

 

 

„Einkaaðili eins og ég“

„Það er algjörlega galið að einkaaðili eins og ég þurfi að fara í aðgerð á borð við þessa,“ segir Hellesøe og bætir því við að með aðgerðum sínum vilji hann þrýsta á norsk yfirvöld til að reka af sér slyðruorðið. „Ríkisstjórnin og herinn verða að annast varnir okkar, norsku þjóðarinnar, á forsvaranlegan hátt. Þessir aðilar verða að gyrða sig í brók,“ segir fjárfestirinn.

Upphafleg áætlun hans gekk sem fyrr segir út á að Senja yrði rannsóknarskip á vettvangi vindorkunýtingar á hafi og um leið skólaskip á þeim vettvangi auk þess sem varðfleyið gamla er þátttakandi í verkefni Evrópusambandsins sem gengur út á að rafmagnsvæða áður olíuknúin stærri hafför.

„En ríkisstjórnin vill ekki hafa vindorkunýtingu á hafi í forgangi svo við þurfum að sjá fyrir okkur aðra notkunarmöguleika,“ segir Hellesøe og vill beina sjónum að því sem hann kallar samfélagslegt vandamál – hættunni á njósnum og skemmdarverkum á þýðingarmiklum innviðum af hálfu nágrannaþjóðarinnar Rússa.

Framtíðarstríð ekki með kúlum og púðri

Bendir hann á að 95 prósent allrar netumferðar heims sé um strengi á hafsbotni, ekki gegnum fjarskipti með bylgjum „uppi í loftinu“ eins og flestir haldi. „Þetta liggur algjörlega óvarið úti um allt,“ segir fjárfestirinn við NRK.

„Við verðum að búa okkur undir að hugsanlegt stríð í framtíðinni verði ekki háð mestmegnis með byssukúlum og púðri. Stríðsreksturinn verður með blönduðum aðferðum, ljósleiðarastrengir verða gerðir óvirkir, því næst röraleiðslur og háspennulínur,“ spáir fjárfestirinn ómyrkur í máli.

Segir hann ótækt að bíða þar til mikilvægir ljósleiðarastrengir hafi verið rofnir. „Sjóherinn, strandgæslan og lögreglan hafa ekki umfang til að hindra að það gerist. Þessir aðilar eru langt á eftir,“ segir Hellesøe enn fremur.

Hann vill útbúa RV North Star, Senju fyrrverandi, eftirlitsdrónum, fjarstýrðum kafbátum, þyrlum og litlum hraðbátum. „Þannig getum við fylgst með svæðinu milli Hardanger- og Sognfjarðar,“ segir norski fjárfestirinn Bernt Hellesøe sem kveðst geta gert skip sitt slarkfært til njósnaraveiða á tíu mánuðum.

NRK

Kystmagasinet (keypti Senju af sjóhernum í fyrra)

Forsvarsmateriell (Senja átti að verða rannsóknarskip)

til baka