Ívar Orri Kristjánsson dæmdi mark af Vestra gegn Stjörnunni í 18. umferð Bestu deildar karla í knattspyrnu og KSÍ setti inn upptöku af atvikinu á samfélagsmiðla.
Vladimir Tufegdzic var rangstæður og Ívar og aðstoðarmenn hans mátu það þannig að hann væri fyrir Árna Snæ Ólafssyni í markinu sem gat þá ekki varið skotið.
KSÍ deildi samskiptum dómarateymis sín á milli og við leikmenn Vestra í myndbandi á Instagram-síðu fyrir dómara á vegum sambandsins.
„Túfa, þú stendur fyrir markmanninum,“ sagði Guðmundur Ingi Bjarnason aðstoðardómari.
„Tufegdzic var rangstæður. Við þurfum að taka ákvörðun. Frá mínu sjónarhorni þá hefur hann áhrif á markmanninn þegar hann tekur hlaupið, þannig sé ég þetta,“ sagði Ívar.
„Hann er aldrei að fara að grípa boltann hvort sem er, “ svaraði Morten Hansen, fyrirliði Vestra.
„Það er þín skoðun. Við þurfum að taka erfiðar ákvarðanir. Þetta gerist ekki oft.“
Stjarnan vann leikinn 2:1.