„Ég vildi gera eitthvað öðruvísi í þessari bók og skrifa glæpasögu sem fjallar ekki um morð,“ segir Hugrún Björnsdóttir rithöfundur í samtali um nýjustu bók sína Uns dauðinn aðskilur okkur sem nýverið kom út hjá Storytel. „Við eigum svo marga frábæra höfunda hér á landi sem skrifa um morðmál með glæsibrag. Þegar ég fór að skrifa hugsaði ég með mér að bókin mín yrði að skera sig úr á einhvern hátt. Þess vegna ákvað ég að sleppa morðinu í þetta sinn og einblína frekar í ríkari mæli á hið sálræna.“
Undir fögru skinni …
Uns dauðinn aðskilur okkur er önnur bók Hugrúnar um réttarsálfræðinginn Kamillu Brim en áður hefur komið út á hljóð- og rafbókarformi Rót alls ills. Að þessu sinni segir frá flóknu máli: Ungur karlmaður hefur kært eldri konu fyrir kynferðisbrot og harðar ásakanir ganga þeirra á milli. Lögreglan leitar til Kamillu eftir aðstoð en samtímis þarf hún að takast á við flækjur í ástarlífinu og gömul fjölskylduleyndarmál sem koma upp á yfirborðið. Kemst hún að sannleikanum – hvort sem er í réttarmálinu eða einkalífinu?
Hugrún segir ástar- og fjölskyldusöguna yfirleitt koma til sín fyrst, síðan sakamálið. „Ég vissi fyrir löngu hvað yrði um ástarmál Kamillu og fjölskyldu hennar, en það tók lengri tíma að finna hitt út. Ég held að ég hafi eytt sex mánuðum í að hugsa plottið út áður en ég settist svo niður og fór að skrifa.“
Við hugmyndavinnuna styðst hún meðal annars við frásögur úr hversdeginum og fréttaflutning. „Þá helst svolítið óvanalegar fréttir með sálfræðilegum eða mannlegum vinkli. Ég hef minni áhuga á köldum staðreyndum og þarf til dæmis ekkert að fá að vita nákvæmlega hvernig ákveðnar blóðslettur lentu á vegg og skvettust á gólfið, en punkta niður hjá mér alls konar atriði sem varða mannlegar tragedíur.
Svo sæki ég líka töluverðan innblástur í sjónvarpsþætti og kvikmyndir og þættirnir um Menendez-bræðurna á Netflix höfðu til dæmis mikil áhrif á mig þegar ég var að skrifa Uns dauðinn aðskilur okkur. Það mál styrkti mig í þeirri trú að ég ætti að segja þessa sögu. Ég var sömuleiðis forvitin um steríótýpuna sem við erum með í huganum af glæpamönnum. Hvernig lítur glæpamaður út? Hlutirnir eru nefnilega ekki alltaf eins og þeir virðast við fyrstu sýn og oft er flagð undir fögru skinni.“
Sögumaðurinn Kamilla er einstakur karakter og það skipti Hugrúnu máli að hún ætti sér ríkt innra líf.
Ekki bara sálfræðingur
„Ég vandaði mig mjög mikið við að gera hana ekki eins og mig. Það er mikil áskorun að eyða svona miklum tíma með sögupersónu og passa að hún verði ekki að sjálfum manni. Ég get eiginlega ekki útskýrt hvaðan hún kom, en hún er að einhverju leyti innblásin af Gísla Guðjónssyni, okkar frægasta réttarsálfræðingi. Þegar ég var að búa hana til man ég að ég hugsaði: Hvað ef aðalpersónan væri eins og yngri, kvenkyns útgáfa af honum? En svo kom hún Kamilla bara til mín og er algjörlega sín eigin persóna.
Ég vildi ekki búa til persónu sem hefði einungis þann tilgang að leysa sakamál. Öll eigum við okkur baksögu og bakgrunn og flækjur í eigin lífi og mér fannst nauðsynlegt að hún hefði allt þetta svo að hún væri trúverðug sem persóna. Hún er ekki bara manneskja sem fer í vinnuna, heldur er hún líka að gera upp alls konar mál í prívatlífinu.“
Glæpir ástarinnar
Bókin fjallar því ekki síður um ástina en glæpi og hana má skilgreina sem rómantíska spennusögu. „Ég er mjög ánægð með þá skilgreiningu af því að ég er sjálf mjög rómantísk og hef mikinn áhuga á ástarsögum,“ segir Hugrún. „Það er þess vegna náttúrulegt fyrir mig að blanda þessu tvennu saman, ástinni og glæpunum. Eftir því sem ég best veit eru heldur ekki margir aðrir að tækla ástina á þennan hátt í spennusögum og þannig get ég líka skorið mig úr fjöldanum.“
Spurð í framhaldinu hver innihaldsefni góðrar rómantískrar spennusögu séu svarar hún eftir dálitla umhugsun. „Það þarf allt að vera rétt tímasett og hraðinn þarf að vera þokkalega mikill til þess að viðhalda spennunni og athygli lesandans. Mikilvægast er samt að lesandinn eða hlustandinn þarf að vilja leysa ráðgátuna með aðalsöguhetjunni. Ráðgátan þarf að skipta hann máli og hann þarf að finna til með sögupersónunum.“
Við skrifin var ýmislegt sem kom henni á óvart. „Sagan varð mun átakanlegri og sorglegri en ég ætlaði mér. Stundum er það einfaldlega þannig, sögurnar öðlast sjálfstætt líf og fara sínar eigin leiðir á meðan maður er að skrifa þær. Annað sem kom mér á óvart var hversu brútal ég gat verið við sögupersónurnar mínar. Þó að mér finnist þær alveg yndislegar þá gat ég verið vond við þær sem höfundur.“
Rithöfundur á kvöldin
Hugrún er þriggja barna móðir í fullu starfi og því er ekki alltaf auðvelt að finna tíma til að sinna ritstörfunum. Hún segist vera rithöfundur á kvöldin eftir að börnin fara að sofa. „Þetta er auðvitað mikið bras sem ég held að flestir höfundar þekki vel, að finna þetta góða jafnvægi á milli skrifanna, heimilislífsins og annarra verkefna. Það tekur á en gengur allt saman. Ástríðan fyrir skrifunum drífur mig áfram.“
Síðasta bókin í þríleiknum um Kamillu er væntanleg til útgáfu á næsta ári og er Hugrún þegar farin að huga að henni. Blaðamaður stenst ekki mátið að spyrja hvort hún sé farin að hugsa út í næstu bók þar á eftir líka. Hvort sú bók verði mögulega ástarsaga. „Það kemur í ljós,“ svarar hún íbyggin. „En ég er allavega með eina hugmynd í kollinum sem ég er ansi spennt fyrir. Hver veit, kannski verður eitthvað meira úr henni.“