mið. 20. ágú. 2025 21:38
Dansveturinn hófst á sýningu á Venus eftir Önnu Guðrúnu Tómasdóttur og Bjarteyju Elínu Hauksdóttur.
Kynjaverur í kvenlegum líkömum

Dansverkið Venus var frumsýnt í Ásmundarsal við Freyjugötu 14. ágúst og sýnt tvo næstu daga. Þar með var dansveturinn 2025-2026 hafinn. Rýnir kynntist plánetunni Venus, femínískri útópíu þar sem feðraveldið hafði aldrei litið dagsins ljós, á Reykjavík Dance Festival haustið 2023 á sviði Tjarnarbíós. Þá var verkið dúett sem höfundarnir Anna Guðrún Tómasdóttir og Bjartey Elín Hauksdóttir dönsuðu sjálfar við hljóðmynd Önnu Róshildar. Þema RDF 2023 var „Feminist Futures“, femínísk framtíð.

https://www.mbl.is/folk/frettir/2025/08/14/ponkid_hefur_fylgt_okkur/

 

Það var því við hæfi að höfundar skoðuðu hið karllæga augnaráð og hlutgervingu kvenlíkamans og tækjust á við fáránleika hlutgervingarinnar, afbyggðu, ýktu og sneru á hvolf öllu sem henni er tengt. Þannig höfðu búningarnir sterka tilvísun í hið kvenlega, nælonsokkabuxur og hælastígvél og sítt bleikt hár, en hreyfingarnar voru aftur á móti dýrslegar og ókunnar. Sú staðreynd að dansararnir voru naktir að ofan opinberaði enn frekar tilvísun í kvenleikann en framsetning líkamanna var algjörlega á skjön við þær ímyndir sem kvenleg nekt hefur alla jafna.

Núna tveimur árum síðar fær rýnir aftur að kanna plánetuna Venus. Íbúum hennar hefur fjölgað til muna og hún fyrirfinnst nú í rýmum Ásmundarsals við Freyjugötu. En þetta er greinilega sama plánetan. Búningarnir eru þeir sömu, sams konar stemning í hreyfingum og lýsingu og Anna Róshildur er á sínum stað við hljóðgræjurnar. Höfundar eru líka algjörlega við sama heygarðshornið hvað efni og efnistök varðar. Breytingarnar sem orðið hafa á verkinu virka mjög vel og hafa gefið höfundum færi á að þróa og útfæra hugmyndina á fallegan hátt. Ásmundarsalur og ferðalagið um húsið gefur verkinu aukið líf og dýpri merkingu. Nándin við áhorfendur er meiri og þar sem verkið byrjar strax með innsetningu og drykk þegar inn í húsið er komið fá áhorfendur strax tilfinninguna fyrir þemanu og því að þeir séu komnir á plánetuna Venus.

Ásmundarsalur er virkilega skemmtilegt rými fyrir frumlega listsköpun. Má þar minnast dans- og myndlistarverksins Atómstjörnunnar eftir Sveinbjörgu Þórhallsdóttur, Steinunni Ketilsdóttur og Jóní Jónsdóttur sem sýnt var í húsinu á Listahátíð 2018 og bauð áhorfendum eins og nú að ferðast um húsið og upplifa galdra í hverju skúmaskoti. Það var ekki fyrr en um og eftir miðja síðustu öld sem danshöfundar fóru að spyrja sig hvort danssýningar ættu eingöngu heima á sviði. Kynslóð svokallaðra póstmódern danshöfunda vildi ná til breiðari áhorfendahóps með því að leita að fjölbreyttari rýmum fyrir sýningar sínar. Þessi hugmynd hefur þróast síðan og er sífellt algengara að rýmið hafi sterk áhrif á kóreógrafíuna og sé jafnvel undirstaða hennar.

Í verkinu Venus tókst höfundum að nýta húsið á fallegan hátt. Áhorfendur nutu í fyrstu samveru á jarðhæð hússins með bleikan drykk í hendi. Rýmið var lýst upp með mildum bleikum tón og á einum veggnum var búið að raða styttum og dúkkum af nöktum konum innan um flöskur og drykki úr líkjörnum Eldblómi sem hannaður er af danshöfundinum Siggu Soffíu. Á öðrum veggjum rýmisins héngu myndir listakonunnar Grétu Guðmundsdóttur og harmóneruðu þær alveg við stemningu dansverksins, en sýning hennar Vængur drekaflugu verður í gangi í salnum til loka ágúst. Á meðan áhorfendur biðu eftir að ferðalagið um plánetuna hæfist var þeim bent á að í gryfju hússins væri eitthvað áhugavert að sjá, sem það var svo sannarlega. Þar hékk net ofna úr loftinu með einum dansara í og allt í kring mátti sjá fléttaðan „naflastreng“ sem lá síðan um allt hús. Hljóðheimurinn þar inni var taktfastur eins og hjartsláttur svo að áhorfendur fengu strax á tilfinninguna að þeir væru að horfa á fóstur í móðurkviði. Það er vandasamt að segja meira um framvindu verksins en þó hægt að segja að það var spennandi að sjá hvað gerðist næst og undrast yfir hugmyndaflugi og útsjónarsemi höfunda.

Talandi um hljóðheiminn þá var hann einkar áhugaverður og stækkaði allar senurnar. Anna Róshildur hafði í sköpun hans sótt í umhverfishljóð sem þær upplifðu þegar þær voru að setja verkið upp og voru slög klukkna Hallgrímskirkju til dæmis sérlega góður undirleikur við atriði þar sem sameining og friður ríkti á ný á milli íbúa plánetunnar eftir nokkur átök. Í viðkvæmu lokaatriði vakti söngl „fóstursins“, sem fylgdi því síðan til allra hinna, sterka upplifun. Tilvist Önnu Róshildar sem hluta af flytjendunum var einföld og átakalaus og staðsetning hátalaranna var skemmtilega nýtt til að draga athygli áhorfenda að nýjum áfangastöðum og ævintýrum á ferðalaginu um plánetuna.

Venus er femínískt verk þar sem kvenlíkaminn er í forgrunni. Höfundum tekst þó algerlega það ætlunarverk að snúa á hið karllæga augnaráð og hlutgervingu kvenlíkamans svo að þrátt fyrir mikla snertingu og nánd á milli hálfnakinna dansaranna er verkið ekki á neinn hátt kynferðislegt. Það má sjá áhrif frá verkum Ernu Ómarsdóttur, fráfarandi listdansstjóra Íslenska dansflokksins, í líkamsbeitingu dansaranna og hreyfiforða, sem er áhugavert og gefur fyrirheit um að ný kynslóð danshöfunda sé að koma fram á sjónarsviðið.

Venus er áhugavert verk sem fær vonandi að ferðast um heiminn og auðga dagskrá fleiri listasafna.

til baka