Bandaríska kvikmyndaframleiðslufyrirtækið A24 á heiðurinn af mörgum bestu hrollvekjum síðustu ára og má af nokkrum nefna Hereditary (2018), Midsommar (2019) og Heretic (2024), allar mjög svo hrollvekjandi. Tveir ungir og efnilegir leikstjórar í hrollvekjudeild A24, tvíburabræðurnir Danny og Michael Philippou, voru kynntir til sögunnar með sinni fyrstu kvikmynd, hrollvekjunni Talk To Me (2022) og þeir eru við sama heygarðshornið í annarri kvikmynd sinni, Bring Her Back, sem er frá þessu ári.
Bring Her Back er nokkru síðri en Talk To Me, þótt ekki vanti í hana hrylling, blóðsúthellingar og óvæntar og óþægilegar uppákomur.
Bring Her Back, sem í íslenskri þýðingu gæti heitið Vektu hana til lífsins, hefst með óhugnanlegum og óskýrum myndbandsupptökum á ókunnu tungumáli. Upptökurnar sýna einhvers konar mannfórnir og mannát. Þetta er mjög subbuleg og hrollvekjandi byrjun og setur tóninn fyrir það sem koma skal. Í framhaldi eru kynnt til sögunnar systkini, piltur og stúlka sem heita Piper (Sora Wong) og Andy (Billy Barrett). Piper er mjög sjónskert og þarf að reiða sig á aðstoð og velvild annarra og þá ekki síst bróður síns. Faðir þeirra lætur lífið snemma myndar og þar sem engin er móðirin eru þau systkini nú orðin munaðarlaus. Þeim er skipaður forráðamaður, kona nokkur að nafni Laura (Sally Hawkins), og þurfa systkinin að vera í hennar umsjá þar til Andy nær 18 ára aldri og getur orðið forráðamaður Piper.
Piper og Billy flytja inn til Lauru og komast fljótlega að því að hún átti áður dóttur sem drukknaði og að með henni býr nú tíu ára drengur, Ollie (Jonah Wren Phillips). Ollie virðist vera veikur á geði, hann talar ekki og Laura læsir hann inni þegar hún er að heiman svo hann skaði ekki sjálfan sig og aðra. Laura er í fyrstu hin elskulegasta og mjög svo móðurleg en er á líður myndina kemur önnur hlið á henni og öllu verri í ljós. Afskekkt heimili Lauru reynist ákveðin endastöð, svo ekki sé meira sagt.
Ferillinn hófst á YouTube
Ekki vantar óhugnaðinn í þessa kvikmynd áströlsku bræðranna, líkt og fyrr sagði, og þeim tekst nokkrum sinnum að bregða áhorfendum allhressilega. Bræðurnir eru ungir að árum, fæddir árið 1992 og vöktu fyrst athygli fyrir gamansöm YouTube-hryllingsmyndbönd sín og áhættuatriði, ef marka má Wikipediu. Hafa þeir hlotið nokkur verðlaun fyrir og eru augljóslega hæfileikaríkir á sínu sviði. En YouTube-myndbönd og kvikmynd í fullri lengd eru ólík form og hægara sagt en gert að halda athygli áhorfenda í nær tvær klukkustundir. Það tekst þeim bræðrum að mestu leyti en myndin er þó ekki gallalaus.
Eitt og annað reynist nokkuð torskilið í frásögninni og spurningar vakna sem lítil svör fást við. Handrit myndarinnar skrifuðu þeir Danny Philippou og Bill nokkur Hinzman og væntanlega vildu þeir að myndin væri að hluta til ráðgáta. Það kann þó að leggjast heldur illa í þá áhorfendur sem vilja heldur svör en spurningar.
Leikarar myndarinnar eru þó prýðilegir og þar fer Sally Hawkins fremst í flokki, leikkona sem oftast nær leikur geðþekkar og hjartahlýjar konur en sýnir hér á sér allt aðra og miklu skelfilegri hlið. Að fá hana í þetta hlutverk er snilldarbragð hjá leikstjórum myndarinnar og eykur hrollvekjugildi hennar, ef þannig mætti að orði komast. Í túlkun Hawkins virðist Laura til alls líkleg. Mun hún beita óvænt ofbeldi eða knúsa börnin og kjassa? Þar er efinn.
Gleði og sorg, ógn og skelfing
Hinir barnungu leikarar standa sig líka vel og sýna sannfærandi leik, bæði í þeim atriðum þar sem glatt er á hjalla og þeim sem sýna ógn og skelfingu. Einna erfiðast hlýtur hlutverk Jonahs Wrens Phillips að hafa verið, en hann leikur Ollie. Phillips segir aðeins örfá orð í allri myndinni og fer tjáning hans því nær eingöngu fram líkamlega. Þeir sem sáu um förðun og brellur eiga líka hrós skilið, fá hárin til að rísa á höfði bíógesta og stundum þurfti ofanritaður hreinlega að líta undan í nokkrar sekúndur. Þessa kvikmynd er betra að sjá á fastandi maga.
Kvikmyndatakan er á heildina litið prýðileg og sjónarhorn myndavélarinnar stundum óvenjuleg og magna upp óttann. Þá er hljóðmyndin mjög svo áhrifarík, mikið af ógnvekjandi hljóðum við myndefni sem lætur manni bregða. Mörg kunnugleg hrollvekjustef má líka sjá á borð við kofa úti í skógi (Hans og Gréta?), slagviðri og hættulegt steypibað. Og illmenni myndarinnar beitir brögðum, gerir fórnarlambið að sökudólgi og reynir að sannfæra aðra um að það sé illmennið. Þetta er kunnugleg brella sem virkar oftast vel í spennutryllum og hrollvekjum.
Að öllu samanlögðu hefur þessi kvikmynd marga kosti, leikarar eru stórfínir og þá sérstaklega Hawkins sem leikur hina kvöldu Lauru af miklum krafti, ógn og tilfinningalegri næmni. Sem hrollvekja virkar myndin vel, veldur oft óþægindum og myndataka og hljóðmynd kalla fram gæsahúð. Allt er þetta prýðilegt en helstu ókostir myndarinnar eru óskýrir hlutar sögunnar, sérstaklega þegar kemur að forsögu atburða. Sumt í söguþræðinum skýrt og skiljanlegt en annað alls ekki. Hinar skelfilegu upptökur á VHS-spólunni í byrjun myndar, hvaðan komu þær og hvernig tengjast þær atburðum myndarinnar? Það er gott og blessað að rugla áhorfendur í ríminu en öllu má þó ofgera.