þri. 19. ágú. 2025 09:55
Fyrirhugað hótel, heilsumiðstöð og veitingastaður eiga að rísa á vesturhluta jarðarinnar Laxárbakka á sunnanverðu Snæfellsnesi.
Hótel og heilsulind sæti mati

Fyrirhuguð uppbygging ferðaþjónustu á Laxárbakka í Eyja- og Miklaholtshreppi á sunnanverðu Snæfellsnesi kann að hafa umtalsverð umhverfisáhrif, að mati Skipulagsstofnunar, og skal því vera háð mati á umhverfisáhrifum.

Laxárbakki resort ehf. er með í undirbúningi umfangsmikla uppbyggingu vegna ferðaþjónustu á um 45 þúsund fermetra svæði á Laxárbakka þar sem reisa á 45 herbergja hótel með laugum, heilsumiðstöð með laugum, veitingastað, þjónustu- og starfsmannahús, þyrlupall og allt að 19 frístundabyggðarhús.

„Hámarksfjöldi í gistingu á hóteli og frístundahúsum er samanlagt 166 manns en veitingastaður og heilsulind geta tekið við allt að 310 manns, þ.e. 150 á veitingastað, 60 í laugar við hótel og 100 í heilsulind. Áætlað er að um 100 starfsmenn, á hverjum tíma, þurfi til að sinna rekstrinum,“ segir í ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framkvæmdanna. Gert er ráð fyrir 300 langtímastörfum við reksturinn.

Í umsögn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands kemur fram að jörðin Laxárbakki sé um 600 hektarar að stærð og mestur hluti hennar sé á votlendi sem liggi að lækjum, ám og fjöru. Af gögnum megi ráða að ætlunin sé að vera þarna með starfsemi sem hafi álíka mikil áhrif á umhverfið og 300 íbúa þorp.

Í greinargerð Laxárbakka resort kemur fram að fyrirhugað sé að byggja upp ferðaþjónustu í áföngum og skapa störf sem ekki séu fyrir hendi í sveitarfélaginu nú þegar, hótelið muni auka afþreyingarmöguleika fyrir ferðamenn á Snæfellsnesi og líklegt sé að fyrirhuguð uppbygging sé til þess fallin að lengja dvöl ferðamanna á svæðinu.

Í niðurstöðu Skipulagsstofnunar segir m.a. að framkvæmdir muni raska votlendi sem nýtur sérstakrar verndar skv. lögum um náttúruvernd. Þær komi einnig til með að raska búsvæðum fugla og fæðusvæðum og bent er á að arnaróðal sé í grennd við fyrirhugað framkvæmdasvæði. Náttúrufræðistofnun og Náttúruverndarstofnun gagnrýna í umsögnum fyrirhugaðar framkvæmdir á svæðinu, sem geti valdið óafturkræfu raski á vistkerfi sem njóti verndar. Laxárbakki resort heldur því hins vegar fram að staðsetning húsanna sé þannig að votlendi raskist óverulega. omfr@mbl.is

til baka