Jarðskjálftinn sem fannst á suðvesturhorni landsins í gær og átti upptök sín suð-suðaustur af Helgafelli í Hafnarfirði var sá stærsti á svæðinu í sjö ár.
Um mjög þekkt sprungusvæði er að ræða, að sögn Steinunnar Helgadóttur, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands.
Skjálftinn mældist 3,8 að stærð. Á síðasta ári urðu 3,6 og 3,7 stiga skjálftar á svæðinu en síðast varð 3,8 stiga skjálfti þar í september árið 2018.
„Það var nokkur eftirskjálftavirkni stuttu eftir og til miðnættis en það voru mest allt skjálftar undir einum að stærð,” segir Steinunn, spurð nánar út í skjálftann í gær.
Hún segir nokkra litla skjálfta til viðbótar hafa bæst við í nótt og í morgun.